„Viðurkenningin er ákveðinn gæðastimpill“
12.01.2026
Ungmennafélagið Stjarnan fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á nýárshófi félagsins í Garðabæ laugardaginn 10. janúar síðastliðinn. Alls voru það sex deildir auk aðalstjórnar sem fengu viðurkenninguna, fimleikadeild, handknattleiksdeild, knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild, lyftingadeild og sunddeild.
Það var Willum Þór Þórsson forseti ÍSÍ sem afhenti viðurkenningarnar að viðstöddu fjölmenni á þessari skemmtilegu nýárshátíð félagsins. Á myndinni eru frá vinstri: Willum Þór Þórsson forseti ÍSÍ, Sigurður Guðmundsson formaður aðalstjórnar Stjörnunnar, Ingibjörg J. Vilhjálmsdóttir, Einar Karl Birgisson, Sæmundur Friðjónsson, Sigurjón Hafþórsson, Aron F. Georgsson og Sigrún Þorsteinsdóttir.
„Fyrir Ungmennafélagið Stjörnuna skiptir miklu máli að uppfylla skilyrði Fyrirmyndarfélaga ÍSÍ. Viðurkenningin er ákveðinn gæðastimpill á starf félagsins í heild“, sagði Baldvin Sturluson framkvæmdastjóri Stjörnunnar af þessu tilefni.
Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttafélög og deildir innan félaga geta sótt um viðurkenningu til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar viðurkenning hefur verið veitt gildir hún í fjögur ár.
Upplýsingasíða um umsóknarferlið.
Myndband um Fyrirmyndarfélag ÍSÍ
Myndina tók Valdimar Tryggvi Kristófersson.