Úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2026
31.12.2025
Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ um flokkun sérsambanda ÍSÍ í afreksflokka og úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2026, en úthlutun nemur alls tæpum 815,7 m.kr. að þessu sinni.
Framlag stjórnvalda til afreksstarfs ÍSÍ hækkaði um 637 m.kr. árið 2025 eftir að hafa verið um 392 m.kr. frá árinu 2019. Var sú hækkun tengd stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands og innleiðingu á nýju umhverfi afreksíþróttastarfs, en stór skref í þá átt voru tekin á liðnu ári. Framlag stjórnvalda fyrir árið 2026 gerir ráð fyrir sömu upphæðum, en stærstum hluta af framlagi ríkisins er úthlutað til sérsambanda ÍSÍ í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ. Þó fara um 120 m.kr. til afreksíþróttafólks sem launagreiðslur og um 100 m.kr. verða endurgreiddar til einstaklinga í gegnum sérsambönd vegna kostnaðar ungmenna sem taka þátt í landsliðsverkefnum sérsambanda.
Til viðbótar við framlag stjórnvalda er Afrekssjóður ÍSÍ fjármagnaður árlega um nærri 100 m.kr. af tekjum ÍSÍ frá Íslenskri getspá samkvæmt reglum þar um sem settar eru af Íþróttaþingi ÍSÍ.
Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 33 sérsamböndum vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna. Hljóta þau öll styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ við þessa úthlutun fyrir árið 2026.
Heildarkostnaður afreksstarfs hjá þeim sérsamböndum sem sóttu um til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2026 er áætlaður um 3.158 m.kr. og er stuðningur sjóðsins tæp 26% af áætluðum heildarkostnaði afreksstarfs sérsambandanna.
Við úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna ársins 2026 var í þriðja sinn unnið eftir nýrri reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ sem samþykkt var í nóvember 2023 og uppfærð í október 2025 þar sem sérsamböndum er skipt í tvo afreksflokka, Afrekssérsambönd og Verkefnasérsambönd. Fer flokkunin eftir alþjóðlegum árangri og umfangi alþjóðlegrar mótaþátttöku. Eru Afrekssérsambönd svo flokkuð eftir fimm þrepa árangurskvarða út frá árangri þeirra í alþjóðlegum mótum undanfarin ár.

Að þessu sinni voru gerðar tvær breytingar á afreksflokkun sérsambanda vegna ársins 2026. Klifursamband Íslands færist úr flokki Afrekssérsambanda í flokk Verkefnasérsambanda og Taekwondosamband Íslands færist úr flokki Verkefnasérsambanda í flokk Afrekssérsambanda. Afrekssérsambönd eru 21 og Verkefnasérsambönd 12.
Áherslur sjóðsins eru óbreyttar frá fyrra ári. Áhersla er á árangur á stórmótum, bæði fullorðinna og ungmenna og árangur er metinn út frá stöðu á heimslista og árangurs í einstaka mótum. Þá er líkt og áður lögð áhersla á fullnægjandi fjölda þátttökuþjóða við mat á árangri. Í vinnslu sjóðsins er lagt aukið vægi á rauntölur úr ársreikningum sérsambanda og minna vægi á áætlanir.
Við ákvörðun á styrkupphæðum til sérsambanda er horft til flokkunar þeirra í afreksflokka. Hljóta þau styrki vegna ákveðinna áhersluþátta eftir því hvaða flokki og þrepi þau tilheyra. Líkt og undanfarin ár hljóta sérsambönd styrk eftir fjölda stöðugilda í afreksstarfi, þátttöku og árangri fullorðinna og ungmenna í stórmótum, vegna hæfileikamótunar, heilbrigðisteymis og menntunar þjálfara og dómara. Að auki eru sérsamböndin styrkt vegna mögulegrar Ólympíuþátttöku og vegna framúrskarandi einstaklinga. Til viðbótar eru svo Afrekssérsambönd styrkt um hluta af ferðakostnaði þeirra í mót og keppnir þar sem styrkfjárhæð fer eftir stærð móta.
Að auki fá öll sérsamböndin styrki út frá þátttöku þeirra á stórmótum og heildarkostnaði við afreksstarf undanfarin ár. Fjögur sérsambönd fá sérstakan árangursstyrk fyrir verðlaun á stórmótum. Afrekssjóður styrkir líkt og undanfarin ár, allt að 75% af kostnaði flestra áhersluþátta og eru áhersluþættir og styrkir með sama sniði og við úthlutun vegna ársins 2025.
