Alþjóðlegur dagur göngunnar 5. október
.png?proc=400x400)
Alþjóðlegur dagur göngunnar, World Walking Day, er þann 5. október og er markmið dagsins að hvetja fólk um heim allan til aukinnar hreyfingar.
Á sunnudag fer rafrænt boðhlaupskefli á milli allra 24 tímabelta heimsins til að undirstrika þann sameiningarmátt sem íþróttir og hreyfing geta haft á heimsvísu. Afreksíþróttakonan og læknaneminn Eygló Fanndal Sturludóttir mun taka við keflinu hér á Íslandi og vekja athygli á þeim krafti og lækningu sem felst í daglegri hreyfingu og hvernig ganga stuðlar að heilbrigðri og betri andlegri líðan áður en Eygló afhendir keflið áfram.
Öllum er velkomið að taka þátt í átakinu, taka við keflinu og rétta það áfram fyrir ákveðinn málstað. Það er TAFISA (The Association For International Sport for All) sem skipuleggur verkefnið ár hvert en milljónir manns í yfir 170 löndum hafa tekið þátt síðan verkefnið fór fyrst af stað árið 1991. Þema World Walking Day í ár er að ganga fyrir friði, aðgengi að íþróttum og menntun, kynjajafnrétti, heilsu og samkennd.
ÍSÍ hvetur öll til að taka þátt í World Walking Day og merkja ÍSÍ á samfélagsmiðlum, @isiiceland, og nota myllumerkið #WorldWalkingDay