Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Ólympíusamhjálpin styrkir íþróttafólk vegna undirbúnings fyrir Los Angeles 2028

23.09.2025

 

Í dag voru undirritaðir samningar vegna einstaklingsstyrkja frá Ólympíusamhjálpinni fyrir Ólympíuleikana í Los Angeles árið 2028.

Níu íþróttamenn frá sjö sérsamböndum ÍSÍ fá styrk frá Ólympíusamhjálpinni að þessu sinni og er um að ræða mánaðarlegan styrk fyrir hvern styrkþega vegna kostnaðar sem til fellur vegna æfinga og keppni. Tveir íþróttamenn af þessum níu fá 1350 dollara á hverjum mánuði, Snæfríður Sól Jórunnardóttir sundkona og Eygló Fanndal Sturludóttir lyftingakona. Hin sjö fá 900 dollara á mánuði í styrk. Styrktímabil hófst þann 1. september 2025 og stendur fram að leikum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.

Styrkþegar Ólympíusamhjálparinnar vegna Los Angeles 2028 eru:

Eygló Fanndal Sturludóttir (ólympískar lyftingar)
Snæfríður Sól Jórunnardóttir (sund, skriðsund)
Hákon Þór Svavarsson (skotíþróttir, skeet)
Andri Nikolaysson (skylmingar, höggsverð)
Sindri Hrafn Guðmundsson (frjálsíþróttir, spjótkast)
Erna Sóley Gunnarsdóttir (frjálsíþróttir, kúluvarp)
Thelma Aðalsteinsdóttir (fimleikar, áhaldafimleikar)
Snorri Dagur Einarsson (sund, bringusund)
Leo Speight (taekwondo -68kg)

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kallaði eftir tillögum frá sérsamböndum ÍSÍ og bárust umsóknir vegna 22 einstaklinga frá níu sérsamböndum fyrir íþróttafólk sem hefur það að markmiði að ná lágmörkum og vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028.

Ólympíusamhjálpin er styrktarkerfi Alþjóðaólympíunefndarinnar og kemur fjármagnið aðallega frá hlut Alþjóðaólympíunefndarinnar af sjónvarpsréttindum Ólympíuleikanna. Afreksmiðstöð Íslands mun styðja við afreksíþróttafólkið og þjálfara þeirra með faglegri umgjörð í samvinnu við hvert og eitt sérsamband. 

Ljósmyndir/Hlín Guðmundsdóttir

Myndir með frétt