Fimm fjölmennustu íþróttagreinarnar bæta við sig

Allar einingar innan ÍSÍ skila árlega til sambandsins starfsskýrslum um starfsemina er varðar umfang og samsetningu viðkomandi einingar, kynjaskiptingu, aldursdreifingu, íþróttagreinar, rekstur og lög.
ÍSÍ birtir árlega tölfræði sem unnin er upp úr starfsskýrslunum og sýnir samtölur um ofangreinda þætti, þ.e. umfang og samsetningu hreyfingarinnar. Það er á ábyrgð félaganna að skila inn starfsskýrslu svo að rétt mynd fáist af fjölda iðkana í íþróttahreyfingunni. Nú hafa verið birtar tölfræðiupplýsingar, unnar upp úr síðustu starfsskýrslum, um starfsárið 2024.
Árleg myndræn tölfræði ÍSÍ er gagnvirk. Notendur geta skoðað gögnin út frá mismunandi þáttum og fengið innsýn í þróun og breytingar. Myndræna tölfræðin er mjög gagnleg fyrir allar einingar innan íþróttahreyfingarinnar en sveitarfélög geta einnig nýtt sér hana, sem og einstaklingar og aðrir hagsmunaaðilar.
Iðkandi (iðkendur)
Hver einstaklingur getur aðeins einu sinni verið talinn sem iðkandi innan hvers mengis. Þegar miðað er við t.d. Þjóðskrá telur hver einstaklingur aðeins einu sinni. Þó svo að viðkomandi einstaklingur geti verið skráður fyrir fleiri en einni iðkun þá telur hann þannig eingöngu sem einn iðkandi.
Iðkun (iðkanir)
Iðkun segir til um fjölda iðkana í hverju félagi, íþróttagrein eða innan íþróttahéraðs. Hver einstaklingur getur verið iðkandi í mörgum greinum og jafnvel er hægt að telja sama einstaklinginn oftar en einu sinni í hverri íþróttagrein, svo framarlega sem hann stundar greinina með fleiri en einu félagi. Við vinnslu tölfræði þá er bara verið að vinna með iðkun (iðkanir).
Tölfræði
Ekki hefur orðið breyting á röðun fimm fjölmennustu íþróttagreinanna innan ÍSÍ á milli ára eins og myndin hér fyrir neðan sýnir. Knattspyrna er enn stærsta íþróttagreinin innan ÍSÍ en af fimm fjölmennustu íþróttagreinunum má sjá mestu aukningu iðkana í körfuknattleik, 9% aukning á milli ára.
Íþrótt | 2024 | 2023 | Breyting milli ára |
Knattspyrna | 32.108 | 30.300 | 6% |
Golf | 28.045 | 27.348 | 2% |
Fimleikar | 16.182 | 15.093 | 7% |
Hestaíþróttir | 13.944 | 13.697 | 2% |
Körfuknattleikur | 10.111 | 9.241 | 9% |
Taflan hér fyrir neðan sýnir að árið 2024 jókst fjöldi iðkana á Höfuðborgarsvæðinu um 11.534 iðkanir, sem er 9,9% aukning frá árinu 2023. Austurland var með hlutfallslega mestu aukningu iðkana á milli ára, 19,08%. Vesturland var eina svæðið sem sýndi örlitla fækkun, með 0,06% samdrætti.
Landshluti | 2024 | 2023 | Mismunur | % breyting |
Höfuðborgarsvæði | 115.623 | 104.089 | 11.534 | 9,98% |
Suðurland | 17.345 | 14.736 | 2.609 | 15,04% |
Norðurland eystra | 15.340 | 13.795 | 1.545 | 10,07% |
Suðurnes | 9.162 | 8.276 | 886 | 9,67% |
Vesturland | 7.724 | 7.729 | - 5 | - 0,06% |
Austurland | 6.207 | 5.023 | 1.184 | 19,08% |
Norðurland vestra | 4.208 | 3.669 | 539 | 12,81% |
Lögheimili erlendis | 3.226 | 2.952 | 274 | 8,49% |
Vestfirðir | 2.575 | 2.385 | 190 | 7,38% |
181.410 |
162.654 | 18.756 |
Íþróttagreinum innan ÍSÍ hefur fjölgað milli ára. Í töflunni hér að neðan má sjá nýjustu íþróttagreinarnra. Padel er ný íþróttagrein og við fyrstu skráningu eru iðkanir 380 talsins í þremur félögum. Pílukast hefur einnig vaxið um 402 iðkanir á milli ára eða um 87% og fjölgaði pílufélögum um níu, úr fjórum félögum árið 2023 og í þrettán félög árið 2024. Iðkanir í frisbígolfi hafa aukist um 8,1% en þar eru félögin þrjú. Þá hafa iðkanir í sambo einnig aukist um 3% á milli ára.
Íþrótt | 2024 | 2023 | % breyting |
Padel | 380 | - | - |
Pílukast | 464 | 62 | 87% |
Frisbígolf | 419 | 385 | 8,1% |
Sambo | 66 | 64 | 3% |