Yfirlýsing frá framkvæmdastjórn ÍSÍ
.jpg?proc=400x400)
Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands lýsir yfir stuðningi og samstöðu með starfsfólki samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Starf samskiptaráðgjafa var sett á laggirnar með lagasetningu eftir ákall um að einstaklingar innan íþrótta- og æskulýðsstarfs sem upplifa einelti, áreitni eða ofbeldi gætu fengið áheyrn, aðstoð og stuðning frá óháðum aðila og leitað réttar síns vegna atvika og misgerða án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.
Frá árinu 2020 hefur samskiptaráðgjafi fengið yfir 400 tilkynningar og tilheyrir meirihluti þeirra mála íþróttahreyfingunni. Hlutverk samskiptaráðgjafa er m.a. að stuðla að öryggi þeirra sem taka þátt í starfsemi íþróttafélaga og að leiðbeina þeim einstaklingum sem til hans leita og afla upplýsinga um mál þeirra. Einstaklingur sem sakaður er um áreitni eða ofbeldi fær þannig tækifæri til að koma sinni hlið málsins á framfæri. Sé viðkomandi ósáttur við vinnulag samskiptaráðgjafa er rétt að beina slíkum erindum til mennta- og barnamálaráðuneytisins sem starfið heyrir undir. Að ráðast opinberlega gegn starfsfólki embættisins er ekki rétta leiðin.
Frambjóðandi til forseta ÍSÍ, Brynjar Karl Sigurðsson, hefur stigið fram og lýst því yfir að samskiptaráðgjafi hafi rýnt í störf hans og skilað um þau skýrslu. Það var gert eftir að tugir fyrrum iðkenda Brynjars Karls og foreldrar þeirra höfðu leitað til samskiptaráðgjafa vegna samskipta við hann.
Í fjölmiðlum hefur komið fram að Brynjar Karl er ósáttur við niðurstöðu skýrslunnar og hefur í stað þess að fara með málið í hefðbundinn farveg og beina athugasemdum sínum til mennta- og barnamálaráðuneytis, brugðist við með því að ráðast harkalega með uppnefnum og hótunum að fagmennsku, heiðri og mannorði einstaklings sem sinnir hlutverki samskiptaráðgjafa.
Brynjar Karl hefur einnig um langt skeið opinberlega nafngreint fólk sem ýmist starfar í íþróttahreyfingunni eða í samstarfi við hana, birt af þeim ljósmyndir og myndskeið, kallað þau illum nöfnum og vegið að heilindum þeirra og mannorði á sama tíma og hann sakar þau um að leggja sig í einelti. Þetta fólk á það flest sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti verið ósammála honum eða gagnrýnt aðferðir hans eða slæma framkomu á einhvern hátt.Framkvæmdastjórn ÍSÍ harmar að viðkomandi einstaklingar þurfi að sitja undir slíku áreiti.
Innan íþróttahreyfingarinnar er mikil áhersla lögð á háttvísi, heilindi og velferð iðkenda, starfsfólks og sjálfboðaliða. Framkoma sem þessi fer þvert gegn gildum íþróttahreyfingarinnar og á ekki heima innan hennar.