Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
19

Heiðranir á 115 ára afmæli Fram

23.05.2023

 

Knattspyrnufélagið Fram fagnaði 115 ára afmæli félagsins 1. maí sl. og bauð gestum og gangandi í kaffi og kökur í nýjum húsakynnum félagsins í Úlfarsárdal.

Við þetta tækifæri voru þrír einstaklingar heiðraðir af hálfu ÍSÍ, fyrir góð störf í þágu félagsins. Reynir Stefánsson og Daði Guðmundsson voru sæmdir Silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín fyrir félagið og Jóna Hildur Bjarnadóttir var sæmd Gullmerki ÍSÍ. Hafsteinn Pálsson formaður Heiðursráðs ÍSÍ afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd ÍSÍ.

Jóna Hildur hefur verið þjálfari, sjálfboðaliði og stjórnarmaður í félaginu í yfir 20 ár. Hún hefur setið í stjórn almenningsíþróttadeildar félagsins allt frá stofnun hennar og lengst af sem formaður. Almenningsíþróttadeild Fram var sú fyrsta sem var stofnuð í landinu og hefur Jóna Hildur verið helsta driffjöður í starfi deildarinnar. Auk þess hefur hún sinnt þjálfun, annast íþróttaskóla fyrir börn, kynningarstarf og verið óþreytandi við að auka hróður almenningsíþrótta í landinu. Þess má geta að Jóna Hildur var um áraskeið sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, meðfram ofantöldum störfum fyrir Fram og lagði mikið af mörkum til eflingu almenningsíþrótta á Íslandi á meðan hún gegndi því starfi.

Daði hefur unnið mikið starf fyrir félagið sem leikmaður, þjálfari, sjálfboðaliði og starfsmaður félagsins.

Reynir var stjórnarmaður í félaginu og hefur starfað sem sjálfboðaliði fyrir félagið í áratug. Hann hefur einnig verið þjálfari, dómari og komið víða við í handknattleikshreyfingunni. Hann er núverandi varaformaður HSÍ.

ÍSÍ óskar ofangreindum innilega til hamingju með viðurkenningarnar og einnig félaginu til hamingju með 115 ára farsæla starfsemi í íþróttahreyfingunni.

Mynd/Jóhann Kristinsson