Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Verkefni Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ 2019

31.01.2019

Almenningsíþróttasvið ÍSÍ stendur fyrir heilsu- og hvatningarverkefnum á hverju ári. Markmið verkefnanna Hjólað í vinnuna, Hjólum í skólann og Göngum í skólann er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Lífshlaupið fer fram í febrúar ár hvert og er ætlað að höfða til allra aldurshópa. Þátttakan hefur vaxið jafnt og þétt frá upphafi og hefur verkefnið náð að skipa sér stóran sess í skóla- og fyrirtækjamenningu landsins. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til að huga að daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er. Íþróttavika Evrópu er haldin í september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Markmiðið er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Einnig sér Almenningsíþróttasvið ÍSÍ um Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ í júní ár hvert, en markmið hlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga á reglulegri hreyfingu. Lögð er áhersla á að hver og einn taki þátt á sínum forsendum. 

Í ár var brugðið á það ráð að senda veggspjöld þar sem sjá má verkefni Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ til skóla og fyrirtækja með yfir 100 starfsmenn. Ef fyrirtæki hefur áhuga á því að fá veggspjald á rafrænu formi má sækja það hér:  Veggspjald

ÍSÍ hvetur skóla og fyrirtæki til þess að leggja þessum verkefnum lið og hvetja sitt fólk til þátttöku.