Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Reykjavíkurleikarnir 2017

21.12.2016

Reykjavíkurleikarnir (WOW Reykjavik International Games 2017) eru fjölgreina afreksíþróttamót sem haldið verður í 10. sinn árið 2017. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ, íþróttafélögin í Reykjavík og dyggum samstarfsaðilum, standa að leikunum. Keppni er frá 26. janúar til 4. febrúar og fer að mestu leyti fram í Laugardalnum og nágrenni hans. Reikna má með að á fimmta hundrað erlendra gesta frá fjölmörgum löndum taki þátt í leikunum í ár ásamt um 2.000 íslenskum íþróttamönnum. Glæsileg hátíðardagskrá verður á báðum keppnishelgum og margt spennandi að sjá.

Í tilefni af 10 ára afmæli leikanna hefur verið opnuð ný vefsíða rig.is. Hér má sjá dagskrá leikanna.

Í ár getur almenningur tekið þátt í spennandi utan dagskrár viðburðum. Einn af þessum viðburðum er 5 km. hlaup, WOW Northern Lights Run, sem fer fram laugardagskvöldið 4. febrúar. Hlaupið er um upplýstar götur Reykjavíkurborgar og blikkandi ljós armbanda vísa hlaupurum veginn á skemmtistöðvar, sem með fjölbreytileika sínum leiðast í tónlist og lýsingu. Hlaupið er hluti af Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar og RIG.

ÍBR stendur einnig fyrir ráðstefnu í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Háskólann í Reykjavík. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er annars vegar lyfjamisnotkun í íþróttum og hins vegar stefnumótun íþróttahreyfingarinnar. Á meðal fyrirlesara er fyrrverandi hjólreiðamaðurinn Michael Rasmussen sem viðurkenndi stórfellda lyfjamisnotkun meðan á ferlinum stóð og ætlar hann að fjalla um það í erindi sínu. Hajo Seppelt, rannsóknarblaðamaður sem gerði heimildamyndir sem þóttu sanna skipulagt lyfjamisferli í Rússlandi, ætlar einnig að vera með erindi. Ron Maughan lífeðlisfræðingur, Jane Allen, Max Siegel og Michael Pedersen eru einnig á meðal fyrirlesara. Dagskráin verður birt fljótlega á vefsíðu RIG.

Hér má sjá skemmtilegt myndband til kynningar á Reykjavíkurleikunum.

Facebook-síða Reykjavíkurleikanna er RIG - WOW Reykjavik International Games.