Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
18

Hálft ár í Smáþjóðaleika í San Marínó

29.11.2016

Í dag er hálft ár þar til Smáþjóðaleikarnir í San Marínó verða settir. Leikarnir standa frá 29. maí - 3. júní 2017. Á þeim tímamótum þurfa þátttökuþjóðir að senda áætlaðan fjölda keppenda og í hvaða keppnisgreinum þeir munu taka þátt. Í framhaldinu kemur svo í ljós hvort að einhverjar keppnisgreinar falli niður vegna dræmrar þátttöku.

Í gær var haldinn undirbúningsfundur með fulltrúum þeirra íþróttagreina sem senda munu keppendur á leikana þar sem farið var yfir næstu skref í undirbúningnum. Útlit er fyrir góða þátttöku íslensks íþróttafólks á leikunum.

Hugmyndina um íþróttakeppni smáþjóða Evrópu má rekja aftur til ársins 1981. Það var útbreidd skoðun að íþróttakeppni þar sem smáþjóðir öttu kappi saman gæti orðið til þess að efla anda og hugsjón Ólympíuhreyfingarinnar og treysta jafnframt vináttubönd þjóðanna. Til leikanna var stofnað að frumkvæði þáverandi forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar, J.A. Samaranach.

Þátttökurétt á Smáþjóðaleikunum eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó og San Marínó, og hafa þær verið með allt frá byrjun.Svartfjallaland tók þátt á leikunum árið 2011 í fyrsta sinn og eru því þátttökuþjóðirnar nú níu talsins.

Smáþjóðaleikarnir fara fram á tveggja ára fresti í einu af löndunum níu.

1985 San Marínó
1987 Mónakó
1989 Kýpur
1991 Andorra
1993 Malta
1995 Lúxemborg
1997 Ísland
1999 Liechtenstein
2001 San Marínó
2003 Malta
2005 Andorra
2007 Mónakó
2009 Kýpur
2011 Liechtenstein
2013 Lúxemborg
2015 Ísland
2017 San Marínó

Þrátt fyrir að ekki væri gert ráð fyrir að leikarnir yrðu mjög umfangsmiklir hefur raunin orðið önnur og hefur þátttakendum farið stöðugt fjölgandi. Er nú svo komið að þátttakendur, með fylgdarliði, eru um 1000 manns. Íslenskum þátttakendum hefur fjölgað jafnt og þétt. Á leikunum í Lúxemborg árið 1995 voru þeir 180, en á fyrstu leikunum voru þeir aðeins 25.

Um leikana hefur verið stofnuð sérstök alþjóðanefnd auk framkvæmdastjórnar. Sæti formanns framkvæmdastjórnar til tveggja ára í senn skipar formaður ólympíunefndar þeirrar þjóðar sem næst heldur Smáþjóðaleika. Sérstök tækninefnd er einnig starfandi undir forsæti sérlegs ráðgjafa Alþjóðaólympíunefndarinnar um tæknimál.

Á myndinni sem fylgir má sjá fulltrúa sérsambanda og ÍSÍ sem sóttu fundinn í gær.