Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Heiðranir á ársþingi USÚ

08.04.2015

Ungmennasambandið Úlfljótur hélt 82. ársþing sitt í Mánagarði í Nesjum 26. mars síðastliðinn. Þingið var ágætlega sótt en alls mættu um 30 fulltrúar til þings. 
Nokkrar tillögur og ályktanir voru samþykktar, m.a. var samþykkt að hvetja stjórnir aðildarfélaga til að leita leiða til að auka samstarf yngri flokka í ólíkum íþróttagreinum. Einnig var samþykkt tillaga stjórnar USÚ um að hlutur USÚ í lottótekjum myndi minnka í 15% heildarupphæðar en þau 5% sem að auki tilheyrðu USÚ skuli framvegis fara í Styrktar- og afrekssjóð. 
Matthildur Ásmundardóttir, formaður USÚ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kjörin í hennar stað. Samkvæmt lögum USÚ skiptir ný stjórn með sér verkum á fyrsta fundi en hana skipa auk Jóhönnu, Páll Róbert Matthíasson og Sigurður Óskar Jónsson.  
Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ flutti ávarp og kveðju stjórnar ÍSÍ. Hann sæmdi Matthildi Ásmundardóttur, fráfarandi formann USÚ, Gullmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.  Sævar Þór Gylfason var sæmdur Silfurmerki ÍSÍ, fyrir áralanga þjálfun ungra íþróttamanna hjá Sindra.  Hann var einnig í stjórn blakdeildar Sindra um nokkurn tíma. Meðfylgjandi mynd er af þeim Sævari, Matthildi og Gunnari.
María Birkisdóttir knattspyrnu- og frjálsíþróttakona var útnefnd Íþróttamaður ársins og þrír ungir iðkendur hlutu hvatningarverðlaun USÚ fyrir árið 2014.  Þá var Hreinn Eiríksson útnefndur heiðursfélagi USÚ.

Nánari fréttir af ársþinginu er að finna á heimasíðu sambandsins www.usu.is.