Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18

Setning 76. Íþróttaþings ÍSÍ

05.05.2023

 

76. Íþróttaþing ÍSÍ var sett kl. 15:30 í dag, 5. maí í Ólafssal, að Ásvöllum í Hafnarfirði. 

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, setti þingið. Í upphafi þings bað hann þingheim um að minnast látinna félaga úr hreyfingunni með mínútu þögn. Lárus kom víða við í sínu ávarpi og fór yfir þær 19 tillögur sem til umfjöllunar verða á þinginu. Hann þakkaði stuðning stjórnvalda við íþróttahreyfinguna á tímum kórónuveirufaraldursins, sem gerði það að verkum að íþróttahreyfingin stendur sterk eftir sem áður og gat hafið kröftugt íþróttastarf strax við afléttingar á faraldrinum. Hann ræddi einnig þörf fyrir aukið fjármagn í íþróttahreyfinguna og nauðsyn þess að hvetja stjórnvöld áfram til að halda áætlanir um þjóðarhöll og aðrar slíkar framkvæmdir. 
Lárus stiklaði á stóru varðandi helstu málefni er brenna á íþróttahreyfingunni, svo sem stöðu sjálfboðaliða, umhverfi afreksíþróttafólks, lýðheilsu, aukinn ferðakostnað og ólöglegar veðmálasíður, svo eitthvað sé nefnt.  Ávarp Lárusar, í heild sinni, má lesa hér.

Guðrún Inga Sívertsen var kjörin 1. þingforseti og Viðar Helgason 2. þingforseti. Þingritarar voru kjörnir Jón Reynir Reynisson og Viðar Sigurjónsson. 

Flutt var rafrænt ávarp frá Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ ávörpuðu einnig þingið.

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, flutti skýrslu stjórnar og Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ kynnti reikninga. Reikningar sambandsins voru samþykktir samhljóða. Tillögum þingsins var vísað í nefndir sem starfa munu fram eftir kvöldi í kvöld og kynna niðurstöður úr nefndum í fyrramálið.

Loks var kynning frambjóðenda til framkvæmdastjórnar ÍSÍ en stjórnarkosning verður á morgun, laugardaginn 6. maí.

Þinggögn er að finna hér.




Myndir með frétt