Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Allir með leikarnir haldnir í fyrsta sinn

11.11.2024

 

Allir með leikarnir fóru fram síðastliðinn laugardag, 9. nóvember, en leikarnir eru ætlaðir börnum og ungmennum með fötlun og eru liður í verkefninu Allir með. Allir með er samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) og var sett á stofn til að stuðla að því að fjölga tækifærum fyrir iðkendur með fötlun í skipulögðu íþróttastarfi. Allir með leikarnir voru haldnir í fyrsta skipti í ár og voru samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ, ÍF og Special Olympics Iceland, Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ), Fimleikasambands Íslands (FSÍ) , Handknattleikssambands Íslands (HSÍ), Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) og Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ). 

Um 120 þátttakendur voru skráðir til leiks á leikunum og hófust þeir klukkan 10 í Laugardalshöllinni. Þar bauðst þátttakendum að reyna fyrir sér í frjálsíþróttum ásamt handknattleik, knattspyrnu og körfuknattleik. Eftir hádegishlé var farið yfir í Ármannsheimilið þar sem þátttakendur reyndu fyrir sér í fimleikasalnum og svo lauk deginum með dúndrandi diskóteki, þar sem allir skemmtu sér konunglega. 

Stefnt er að því að Allir með-leikarnir verði árlegur viðburður og einn af þremur viðburðum undir merkjum Allir með-verkefnisins fyrir iðkendur með fötlun á Íslandi. Hinir tveir viðburðirnir eru Íslandsleikarnir, sem fóru í fyrsta sinn fram á Akureyri í vor og viðburður á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgi ár hvert.

Myndir/Jón Aðalsteinn.

Myndir með frétt