Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Syndum hófst í Ásvallalaug

01.11.2024

 

Syndum, landsátak í sundi, var ræst með formlegum hætti í Ásvallalaug í morgun. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Sameiginlega safna allir þátttakendur metrum á meðan á átakinu stendur, sem hægt er að fylgjast með á forsíðu Syndum, og er jafnframt hægt að sjá hversu marga hringi þeir hafa synt saman í kringum Ísland.

Ávörp við setninguna fluttu Þórey Edda Elísdóttir, varaforseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), Júlía Þorvaldsdóttir, varaformaður Sundsambands Íslands (SSÍ) og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Þórey Edda bauð alla velkomna á setninguna og kynnti átakið og kosti þess að vera með. 

Júlía fór einnig yfir það hve gagnleg íþrótt sundið er fyrir alla aldurshópa. Ungbarnasund auki öryggi í vatni, sund styrki líkamann og auki samhæfingu fyrir alla sundgarpa og fyrir eldri borgara létta mjúkar hreyfingar í vatninu álag á liðamót og er frábært til að auka liðleika. Júlía fór einnig yfir það að sundfélögin skapi sterk samfélög fyrir sundiðkendur og afreksfólk. Þau stuðli einnig að heilbrigðum lífsstíl, félagslegri þátttöku og aukinni hvatningu til reglulegrar hreyfingar. Það mætti eiginlega kalla sundið þjóðaríþrótt Íslendinga því það eru svo margir sem stunda sund, afreksfólk, grunnskólanemendur og almenningur. 

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, tók svo síðust til máls og sagði frá því að Hafnarfjörður hafi verið Heilsueflandi bær frá árinu 2015 og það væri mikill metnaður bæjaryfirvalda að styrkja íþróttastarf, hvort sem það væri fyrir almenning eða afreksfólk. Hún minntist á öll frábæru íþróttamannvirkin í bænum sem hafa skilað sér í almennri ánægju og hreyfingu bæjarbúa. Hún hvatti einnig alla til að taka þátt í Syndum, því það hjálpaði líka við andlega líðan og hugarró.

Ungir sundiðkendur hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar (SH) tóku svo sundsprett á sama tíma og Rósa lauk máli sínu og settiátakið formlega af stað. Þess má geta að SH er eina félagið á landinu sem hefur átt þátttakanda á Ólympíuleikunum síðan 1996. 

UM VERKEFNIÐ
ÍSÍ í samstarfi við SSÍ stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. - 30. nóvember 2024. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. 
Í átakinu taka landsmenn sig saman og synda hringi í kringum Ísland en á síðasta ári náðist að leggja að baki 20 hringi í kringum landið.

ÍSÍ hvetur alla sem geta, til að skrá sig til leiks og synda í nóvember.

Myndir með frétt