Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
6

Frábær árangur á Norðurlandameistaramótinu í frjálsum

21.05.2024

 

Um liðna helgi fór fram Norðurlandameistaramótinu í frjálsum íþróttum en það var haldið í Malmö í Svíþjóð. Sautján Íslendingar voru mættir til leiks og stóðu sig allir mjög vel. 
 
Hluti af þeim þrettán, sem mynda Ólympíuhóp ÍSÍ, tóku þátt á mótinu. Guðni Valur Guðnason varð Norðurlandameistari í kringlukasti með kasti upp á 60,71 m. Erna Sóley Gunnarsdóttir, hafnaði í öðru sæti í kúluvarpi með kasti upp á 17,20 m og Hilmar Örn Jónsson, hafnaði í fjórða sæti í sleggjukasti þegar hann kastaði 71,10 m. Frábær árangur hjá okkar fólki í Ólympíuhópi ÍSÍ.
 
Aníta Hinriksdóttir (FH) varð Norðurlandameistari í 1500m hlaupi er hún hljóp á tímanum 4:19,14 mín. Hún varð svo önnur í 800m hlaupi þegar hún hljóp á tímanum 2:05,42 mín.
 
Daníel Ingi Egilsson (FH) varð Norðurlandameistari í langstökki. Hann stökk 8,21 m og bætti 30 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar um 21 cm. Þessi flotti árangur gefur Daníel möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar en Ólympíulágmarkið er 8,27 m. Daníel jafnaði tólfta besta árangur í heiminum og á því einnig möguleika á sæti á leikana gegnum heimslista.
 
Birta María Haraldsdóttir (FH) bætti sitt persónulega met er hún stökk 1,87 m í hástökki og hafnaði í öðru sæti. Sindri Hrafn Guðmundsson (FH) var í öðru sæti í spjótkasti með kasti upp á 78,82 m.

ÍSÍ óskar öllu þessu flotta íþróttafólki til hamingju með frábæran árangur og góðs gengis í þeim verkefnum sem eru framundan.
 
Nánari frétt má finna á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins en þar eru myndir og upplýsingar um árangur fleiri keppenda.

Myndir/FRÍ.

Myndir með frétt