Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur í Þorlákshöfn
Á hverju ári er haldið upp á Alþjóða Ólympíudaginn þann 23. júní úti um allan heim í tilefni af því að Alþjóðaólympíunefndin (IOC) var stofnuð á þessum degi árið 1894. Íþrótta-og Ólympíusambandið fagnaði deginum í gær í samvinnu við Sveitarfélagið Ölfus og Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) og bauð unglingum úr Vinnuskólanum og börnum af leikjanámskeiðum að taka þátt í íþróttum og leikjum í Skrúðgarðinum í Þorlákshöfn.
Á Ólympíudeginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum. Í Skrúðgarðinum voru settar upp fimm ólíkar stöðvar; ringó, krossbolti, veiðileikur, fötuleikur og æfing sirkusatriða sem Jörgen Nilsson, viðburða- og verkefnastjóri hjá Dalamacamp sá um að kenna. Um 50 unglingar Vinnuskólans mættu á svæðið, skipt var í hópa og fjörið hófst. Unglingarnir tóku virkan þátt og voru áhugasamir um að læra nýja færni og skemmtilega leiki. Í lokin voru grillaðar pylsur og sveitarfélagið bauð upp á ís.
Eftir hádegi mætti yngri kynslóðin í garðinn. Hópurinn taldi um 30 krakka á aldrinum 6-9 ára sem flest voru á leikjanámskeiðum í bænum. Krökkunum var skipt á fjórar ólíkar stöðvar sem flestar byggðust á leikjum en svo var ein sirkusstöð. Eftir að krakkarnir höfðu farið á allar stöðvar mætti Blossi, lukkudýr ÍSÍ á svæðið en hann vekur alltaf lukku. Yngstu krakkarnir fengu einnig grillaðar pylsur og ís í lokin.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, kom í garðinn og heilsaði upp á krakkana og starfsfólk ÍSÍ og þau Guðríður Aadnegard formaður HSK og Engilbert Olgeirsson framkvæmdastjóri komu einnig í heimsókn. Starfsfólk ÍSÍ þakkar Sveitarfélaginu Ölfusi og öllum þátttakendum í Ólympíudeginum kærlega fyrir skemmtilegan dag.
Myndir frá Ólympíudeginum í Þorlákshöfn má sjá hér.