Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
01.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2022 - Dakar

Næstu Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram...
26

Valdimar Örnólfs 90 ára

09.02.2022

Valdimar Örnólfsson, Heiðursfélagi ÍSÍ er 90 ára í dag, 9. febrúar. Kristrún og Kristín, starfsmenn ÍSÍ, heimsóttu Valdimar í tilefni dagsins og færðu honum úlpu að gjöf frá stjórn og starfsfólki ÍSÍ, í stíl við íslensku Ólympíufarana sem staddir eru á Vetrarólympíuleikunum í Peking þessa dagana. Valdimar tók vel á móti þeim stöllum sem sungu fyrir hann afmælissönginn og brá á leik með þeim í myndatöku úti í fallegu vetrarveðrinu. 

Valdimar er þjóðþekktur maður, ekki síst frá þeim tíma sem hann stjórnaði leikfimi í Ríkisútvarpinu á árunum 1957-1982 en hann var einnig íþróttastjóri Háskóla Íslands frá 1967 og þar til hann fór á eftirlaun. Hann stofnaði Skíðaskólann í Kerlingarfjöllum 1961, ásamt Eiríki Haraldssyni, og stýrði honum meira og minna fram að aldamótum 2000 þegar skólanum var lokað vegna snjóleysis.

Valdimar var meðal annars fyrsti formaður Fimleikasambands Íslands og fyrsti formaður Ólympíuakademíunnar. Hann er Ólympíufari en hann keppti á Vetrarólympíuleikunum í Cortina á Ítalíu 1956 en einnig var hann þjálfari og fararstjóri alpagreina á Ólympíuleikunum í Innsbruck 1964. Valdimar fylgist vel með Vetrarólympíuleikunum í Peking en svo skemmtilega vill til að Örnólfur sonur hans er staddur á leikunum sem læknir íslenska hópsins.

ÍSÍ óskar Valdimar innilega til hamingju með stórafmælið og óskar honum áframhaldandi góðrar heilsu.