Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
22

ÍSÍ úthlutar rúmlega 515 m.kr. í afreksstyrki

28.12.2020

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2021, en styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema rúmlega 515 milljónum króna og er um að ræða hæstu úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ frá upphafi.

Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á alþjóðlegt afreksíþróttastarf voru umtalsverð á árinu 2020 og gerði að verkum að fjölmargir alþjóðlegir íþróttaviðburðir féllu niður eða var frestað. Afreksíþróttastarf sérsambanda ÍSÍ varð þannig fyrir miklum áhrifum og ekki var farið í verkefni með sama hætti og áætlanir gerðu ráð fyrir. Vegna þessa hefur þurft að fella niður hluta af fyrri styrkveitingu til sérsambanda vegna verkefna ársins 2020 og er þeim fjármunum nú úthlutað til sérsambanda samkvæmt reglugerð sjóðsins, en þó með þeim fyrirvara að endanlegar niðurfellingar verða endurskoðaðar þegar ársreikningar sérsambanda liggja fyrir.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ hefur hækkað mikið á undanförnum árum og var fyrir árið 2020 að upphæð 400 milljónir króna. Framlag ríkisins vegna 2021 lækkar um 8 milljónir króna frá síðustu árum og verður nú 392 milljónir króna. Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings ÍSÍ.

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 31 sérsambandi. Að þessu sinni hljóta 30 sérsambönd styrk vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna og er um misháar upphæðir sé að ræða.

Heildarkostnaður afreksíþróttastarfs hjá þeim sérsamböndum sem sóttu um til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2021 nema um 2.549 m.kr. og er stuðningur sjóðsins því að meðaltali um 20% af kostnaði sérsambanda, en þess má þó geta að árið 2016 var hlutfallið um 11%.

Unnið hefur verið eftir sama vinnulagi og á undanförnum árum, en 2017 var nýtt ferli tekið upp hjá Afrekssjóði ÍSÍ vegna styrkjaumsókna og meðhöndlun þeirra.
Sérsambönd eru flokkuð í þrjá afreksflokka, þ.e. A/Afrekssérsambönd, B/Alþjóðleg sérsambönd og C/Þróunarsérsambönd. Við ákvörðun á styrkupphæðum til sérsambanda er fyrst horft til flokkunar þeirra í afreksflokka. Eftir því hvaða flokki þau tilheyra er heimilt að veita þeim styrk vegna ákveðna málaflokka. Þannig hljóta sérsambönd grunnstyrk sem er mishár eftir flokki, styrk vegna þátttöku í HM/EM, styrk vegna hæfileikamótunar, vegna heilbrigðisteymis og vegna menntunar afreksþjálfara/landsliðsþjálfara. Í flokki A og B sérsambanda eru síðan fleiri flokkar sem eru styrktir, s.s. vegna verkefna alþjóðlegra dómara, verkefna yngri liða/einstaklinga, vegna Ólympíuundirbúnings og vegna einstaklinga. Það sem greinir samt helst á milli sambanda varðandi upphæðir er umfang þess afreksstarfs sem á sér stað hjá sambandinu. Þannig skila öll sérsambönd inn áætlun um verkefni ársins og fjölda þátttakenda og lengd verkefnis. Hvert mót fær ákveðinn stuðul eftir vægi mótsins samkvæmt skilgreiningu sérsambands. Úr þessum gögnum verður til mismunandi stigafjöldi fyrir hvert sérsamband og fær sambandið úthlutað hluta af styrknum samkvæmt þeim stigafjölda sem það mælist með.

Áhersluþættir sjóðsins sjást í úthlutun til sérsambanda og hvernig einstaka þættir eru styrktir.
 Ekki voru gerðar breytingar á flokkun sérsambanda í afreksflokka vegna ársins 2021 og hefur verið horft til þess að það ástand sem skapaðist á árinu 2020 hafi sem minnstar breytingar á flokkun sérsambanda og styrkveitingar.

Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ er fjallað um kröfur um afreksstefnur sérsambanda sem uppfylla viðmið ÍSÍ. Þannig er lögð áhersla á að öll sérsambönd móti sér stefnu í afreksíþróttum sem hljóti umfjöllun og samþykki á sérsambandsþingi. Mismunandi kröfur eru þó gerðar til sérsambanda eftir afreksflokkum þeirra.

Á næsta ári eru margir stórviðburðir á dagskrá eins og HM í handknattleik karla sem er í upphafi árs og Ólympíuleikar og Ólympíumót fatlaðra í Tókýó. Vorið fram undan er mjög mikilvægt keppendum í íþróttagreinum þar sem lágmörk og staða á heimslista ræður því hverjir vinna sér inn keppnisrétt á leikana í Tókýó og verður spennandi að fylgjast með árangri íslenskra keppenda á næstu misserum. Sérstaklega eftir óvenjulegt ár 2020.

Í þessum tölum er verið að tala um heildarúthlutun til viðkomandi sérsambands og er nánari útfærsla skilgreind í samningum sem gerðir verða við sérsambönd á næstunni.
Áherslur ÍSÍ varðandi afreksstyrki mótast af Afreksstefnu ÍSÍ þar sem segir: „Meginhlutverk Afrekssjóðs ÍSÍ í uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi er að styðja sérsambönd fjárhagslega og þar með íslenskt afreksíþróttafólk við að ná árangri í alþjóðlegri keppni. Forsenda styrkveitinga er að sérsambönd hafi markvissa og raunhæfa afreksstefnu, ásamt aðgerðaráætlun. Stuðningur sjóðsins felst í fjárframlögum vegna verkefna sem skulu vera fyrir fram skilgreind í aðgerðaráætlun viðkomandi sérsambands.”