Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

04.02.2022 - 16.02.2018

Peking 2022

Vetrarólympíuleikar fara fram í Peking í Kína...
17

Minningarorð um Vilhjálm Einarsson

10.01.2020

Útför Vilhjálms Einarssonar Heiðurfélaga ÍSÍ fór fram frá Hallgrímskirkju í dag, föstudaginn 10. janúar. Fjölmenni var við athöfnina enda Vilhjálmur þekktur einstaklingur og vinsæll. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ var einn af kistuberum við athöfnina.

Hér fyrir neðan má sjá kveðjuorð frá ÍSÍ sem ekki náðist að birta í Morgunblaðinu í dag en birt verður einhvern næstu daga líkt og fjöldi annarra greina um Vilhjálm. 
Blessuð sé minning Vilhjálms Einarssonar.

Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands
Það er með söknuði sem við kveðjum Vilhjálm Einarsson, Heiðursfélaga ÍSÍ. Hans verður minnst sem eins fræknasta íþróttamanns Íslands, fyrr og síðar.
Vilhjálmur var fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum er hann vann silfurverðlaun á leikunum í Melbourne árið 1956 og setti þar Ólympíumet sem hann átti í tvær klukkustundir. Enginn annar Íslendingur hefur sett Ólympíumet, hvorki fyrr né síðar. Vilhjálmur var fimm sinnum kjörinn Íþróttamaður ársins og er sá Íslendingur sem hefur oftast hlotið þá nafnbót og hann var einnig fyrstur allra útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Afrek hans verða ekki öll tíunduð hér en engum dylst að Vilhjálmur var framúrskarandi íþróttamaður og mikilvæg fyrirmynd fyrir íþróttafólk á öllum aldri. Það er með ólíkindum að Íslandsmet sem Vilhjálmur setti árið 1960 standi enn og það vekur bæði undrun og aðdáun að ganga fram hjá vel heppnuðu listaverki við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum sem sýnir lengd silfurstökksins frá Ólympíuleikunum í Melbourne. Með því listaverki og öðrum heimildum sem gert hafa stökkinu og afrekum Vilhjálms góð skil, mun silfurstökk Vilhjálms halda áfram að veita íþróttafólki framtíðarinnar innblástur.
Vilhjálmur var einnig farsæll skólastjórnandi og lagði sitt af mörkum til menntunar- og uppeldismála í landinu. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2006 fyrir framlag sitt í þágu íþrótta- og uppeldismála.
Vilhjálmur var í góðu sambandi við skrifstofu ÍSÍ og hann var duglegur að mæta á viðburði sem Heiðursfélagar ÍSÍ taka þátt í. Hann sýndi starfi sambandsins og hreyfingarinnar allrar áhuga og naut þess að hitta unga sem aldna félaga í hreyfingunni við hátíðleg tækifæri, rifja upp gamla tíma og gefa góð ráð. Hans var saknað á hófi Íþróttamanns ársins í desember síðastliðnum þar sem hann lét sig yfirleitt ekki vanta. Má segja að það hafi verið táknrænt að andlát hans bar að sama kvöld og sú hátíð fór fram, í ljósi þess að hann hafði hlotið titilinn Íþróttamaður ársins oftar en nokkur annar.
 
Stjórn og starfsfólk ÍSÍ sendir Gerði eiginkonu Vilhjálms og fjölskyldunni allri dýpstu samúðarkveðjur.
Minningin um Vilhjálm Einarsson – Silfurmanninn – mun lifa.
 
Lárus L. Blöndal
forseti ÍSÍ