Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Landssamband hestamannafélaga hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

30.10.2017Landssamband hestamannafélaga (LH) hefur hlotið viðbótarstyrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna landsliðsverkefna ársins 2017. Um er að ræða styrk að upphæð 2 m.kr. sem bætist við fyrri úthlutun til sambandsins, en sambandið hlaut styrk að upphæð 2,2 m.kr. í fyrri úthlutun ársins úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Í hestaíþróttum var stærsti viðburður ársins Heimsmeistaramót íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi 7.- 13. ágúst sl. Keppni á þeim viðburði verður sífellt harðari með aukinni útbreiðslu íslenska hestsins til annarra landa og eflingu afreksstarfsins hjá öðrum þjóðum, og er það ekki sjálfgefið að Íslendingar vinni til gullverðlauna. Ísland vann fern gullverðlaun í íþróttakeppninni á mótinu og voru tveir af íslensku kynbótahestunum efstir í sínum aldursflokki. Þá vann Ísland Liðsbikarinn sem veittur er stigahæsta keppnisliðinu og má því segja að árangurinn hafi verið mjög góður. Hjá sambandinu er verið að vinna markvisst að þeim þáttum sem snúa að fagteymi og mælingum og er fagleg umgjörð sem snýr að knöpum að aukast. Styrkur Afrekssjóðs ÍSÍ er mikilvægur gagnvart öllu afreksstarfi sambandsins og hjálpar til við að efla það faglega starf sem þar á sér stað.

Á myndinni má sjá þau Lárus Ástmar Hannesson, formann LH, Hildu Karen Garðarsdóttur, verkefnastjóra LH, Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ og Andra Stefánsson, sviðsstjóra Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.