Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
6

Skautasamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

30.10.2017Skautasamband Íslands (ÍSS) hefur hlotið viðbótarstyrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna landsliðsverkefna ársins 2017. Um er að ræða styrk að upphæð 400.000 kr. sem bætist við fyrri úthlutun til sambandsins, en sambandið hlaut styrk að upphæð 600.000 kr. í fyrri úthlutun ársins úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Skautasambandið hefur unnið markvisst að því að efla afreksstarf innan sérsambandsins og á nú í fyrsta skipti þrjá senior skautara sem eru að stefna á þátttöku á Evrópumeistaramóti fullorðinna, en til þess þarf að ná ákveðnum lágmörkum. Sambandið hefur skilgreint alþjóðleg verkefni og mót í mismunandi flokka og er árlega verið að senda keppendur á Junior Grand Prix mót, Norðurlandamót og ISU mót, þ.e. erlend mót á vegum alþjóðasambandsins. Er með þátttöku verið að vinna að því að ná lágmörkum á enn stærri viðburði sem er mikilvægt í framþróun íþróttarinnar hérlendis. Íþróttin býr við mikið aðstöðuleysi ef horft er til þess tímafjölda sem íslenskir skautarar hafa til æfinga á svelli og hefur það áhrif á afreksstarf og umfang íþróttarinnar. Styrkur Afrekssjóðs ÍSÍ skiptir miklu máli gagnvart undirbúningi og þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og hjálpar til við að efla afreksstarf innan sérsambandsins.

Á myndinni má sjá þau Guðbjörtu Erlendsdóttur, formann ÍSS og Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ.