Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
3

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ var haldið í bongó blíðu í dag!

04.06.2016

Mikil veðurblíða var á landinu öllu í dag þegar Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og sjöunda sinn. Góð þátttaka var í hlaupinu en gera má ráð fyrir að um 12.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum hérlendis og erlendis. Í kringum 4.000 konur hlupu í Garðabænum og um 1.500 í Mosfellsbæ en þetta eru tveir stærstu hlaupastaðir hlaupsins.

Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 900 m upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum þar sem ömmur, mömmur, dætur og vinkonur hreyfðu sig og skemmtu sér saman. Gaman var að sjá hversu margir strákar tóku þátt í hlaupinu í ár. Þó svo að hlaupið hafi í upphafi verið ætlað konum eins og nafn þess gefur til kynna þá hafa karlmenn alltaf verið velkomnir í hlaupið.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allar konur komi í mark á sínum hraða og með bros á vör.

Garðbæingar hafa haft þá hefð að veita elsta þátttakanda hlaupsins viðurkenningu. Að þessu sinni var það María Jóna Helgadóttir sem er fædd 1930 sem fékk afhentan grip sem ÍSÍ og Stjarnan gáfu til minningar um Lovísu Einarsdóttir, íþróttakennara og upphafskonu Kvennahlaupsins.
Mosfellingar gáfu að vanda öllum langömmu rós þegar þær koma í mark.

Öldrunarheimili víðsvegar um land hafa boðið sínu heimilisfólki að taka þátt í Kvennahlaupinu í vikunni sem er að líða. Mikil gleði er meðal heimilisfólkis með þetta framtak og mikið er lagt í að virkja alla til þátttöku.

Íþrótta- og Ólymíusamband Íslands þakkar konum fyrir þátttökuna í ár. Einnig þakkar ÍSÍ Sjóvá, aðal samstarfsaðila Kvennahlaupsins, fyrir stuðninginn sem og öðrum samstarfsaðilum; Morgunblaðinu, Ölgerðinni, NIVEA og Merrild.