Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

04.02.2022 - 16.02.2018

Peking 2022

Vetrarólympíuleikar fara fram í Peking í Kína...
28

Fyrsta keppnisdegi lokið á Smáþjóðaleikum

02.06.2015

Viðburðarríkur fyrsti keppnisdagur Smáþjóðaleikanna er á enda runninn.  Íslensku keppendurnir stóðu sig afar vel og má þar meðal annars nefna eftirfarandi árangur.

Skotíþróttadrottningin Íris Eva Einarsdóttir vann til gullverðlauna í loftriffli kvenna og náði þar með að tryggja sér fyrstu verðlaun Íslendings á Smáþjóðaleikunum 2015. 
Í sundi náði Hrafnhildur Lúthersdóttir A lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Ríó í 200 m fjórsundi á 2:13,83 mín. Einnig setti hún Íslands- og mótsmet og bætti Íslandsmet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur um 1,04sek. 
Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari, sigraði í spjótkasti kvenna með kasti upp á 58,85 metra í fjórðu umferð.
Hafdís Sigurðardóttir stökk 6,50 metra í langstökki og sigraði greinina.
Í 5000 metra hlaupi karla sigraði Hlynur Andrésson á tímanum 14:45,94. 
Íslensku fimleikastelpurnar sigruðu liðakeppnina örugglega og vörðu þar með titilinn frá því í Lúxemborg 2013. Dominiqua Alma Belányi, sigraði í fjölþraut kvenna. Dominiqua vann einnig árið 2013 og er þar með fyrst kvenna til að verja Smáþjóðaleikatitilinn í greininni.
Það var spennandi leikur í blaki kvenna þegar að Ísland og Liechtenstein mættust. Höllin var þétt setin af áhorfendum, sem að myndaði skemmtilega stemmningu. Ísland sigraði Lichtenstein 3-0 eftir frábæran leik. Hrinunar enduðu (22:25) (20:25) (21:25).
Tveir einliðaleikir unnust í tennis. Birkir Gunnarsson keppti við Bradley Callus frá Möltu og vann 6-2, 6-1 eftir mjög sannfærandi leik. Hjördís Rósa Guðmundsdóttir vann Judit Cartana Alana frá Andorra, 6-4, 6-2.  
Í körfuknattleik má helst nefna að íslenska kvennalandsliðið sigraði sterkt lið frá Möltu 83-73 eftir mjög spennandi leik. Malta var yfir allt undir lok annars leikhluta. Helena Sverrisdóttir spilaði virkilega vel, en hún var með 22 stig, 6 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 4 fráköst.
Þær Berglind Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir sem skipa kvennalið Íslands sigruðu Liechtenstein í æsispennandi leik 2-1, þar sem oddahrinunni lauk með 15-13 sigri eftir að staðan hafði verið jöfn 13-13.

Önnur úrslit má sjá á heimasíðu leikanna með því að smella 
hér.