Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
4

Vetrarólympíuleikarnir 2022

25.07.2014Framkvæmdastjórn Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) hefur samþykkt að borgirnar Osló (Noregur), Almaty (Kasakstan) og Peking (Kína) færist frá stigi umsækjenda um Vetrarólympíuleikana 2022 í stig þeirra borga sem koma til greina í samkeppninni um að halda leikana.
 

Framkvæmdastjórnin byggði ákvörðun sína á greiningu og skýrslu á þeim umsóknum sem henni bárust frá borgum sem sóttu um fyrr á þessu ári. Greininguna framkvæmdi vinnuhópur, skipaður af IOC, sem samanstóð af sérfræðingum um Ólympíuleika. Hópurinn mat hverjir möguleikarnir væru á því fyrir hverja borg að halda Ólympíuleikana 2022 og takast vel til. Tæknilegt mat var byggt á fjölda viðmiðana, meðal annars á því hvernig leikvangar í borginni eru, samgöngur, gisting og öryggi. 

Í því ferli að sækja um að halda Ólympíuleika eru umsækjendur hvattir til þess að útbúa umsókn sem lýsir best þeim einstöku aðstæðum sem borgin býður upp á, með áætlun sem sýnir fram á hvernig leikarnir komi sér vel fyrir borgina og svæði í kring og tryggi jákvæða og sjálfbæra arfleifð fyrir íbúana. Osló, Almaty og Peking hafa sýnt fram á það.

Í umsókn Oslóar er lögð áhersla á yngri kynslóðina og að halda áfram að byggja á þeirri miklu arfleifð sem Vetrarólympíuleikarnir í Lillehammer 1994 skildu eftir sig. Þar er vonast til þess að leikarnir muni veita fólki innblástur að heilbrigðari lífsstíl. Í umsókn Almaty er áherslan sú að búa til skilyrði sem gera borginni kleift að verða íþrótta-, ferðaþjónustu- og ráðstefnumiðstöð í Mið-Asíu. Í umsókn frá Peking kemur fram að vonast sé til þess að framlengja arfleifð þeirra leikvanga sem byggðir voru fyrir Ólympíuleikana 2008. Markmiðið þeirra er að búa til vetraríþróttamiðstöð fyrir Kína og nota Vetrarólympíuleikana sem hvata fyrir frekari þróun á ferðaþjónustu og vetraríþróttaiðnaði.

Borgirnar sem koma til greina hafa fram í janúar 2015 til þess að skila inn sínum endanlegu umsóknum. Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, mun þá skipa matsnefnd, sem samanstendur af meðlimum IOC og sérfræðingum, sem heimsækir borgirnar. Að því loknu verður skýrsla lögð fram sem aðstoðar IOC meðlimi við að velja borgina sem mun halda Vetrarólympíuleikana 2022. Þann 31. júlí 2015 mun IOC velja borgina og tilkynnt verður um úrslitin.