Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

02.10.2020 - 03.10.2020

Ársþing FRÍ 2020

Ársþing Frjálsíþróttasambands Íslands verður...
04.10.2020 - 29.10.2020

Dagur göngunnar

Í dag er dagur göngunnar eða #WorldWalkingDay...
1

COVID-19 og íþróttahreyfingin

Tengill á algengar spurningar og svör 

Spurningarnar og svörin eru unnin með það að markmiði að lýsa lagaumhverfi í núverandi ástandi á fordæmalausum tímum vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. 
Lagaleg greining á tilteknum álitamálum er almenn og leiðbeinandi og hefur ekki að geyma tæmandi svör eða lagalega niðurstöðu fyrir öll álitamál sem geta sprottið upp vegna þeirrar stöðu sem er uppi í samfélaginu í dag. Hvert mál verður að meta sérstaklega með einstaklingsbundnum hætti. Markmiðið er að lýsa almennum réttarreglum á þeim sviðum sem álitamál geta komið upp. 
 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 25. september 2020

Ný auglýsing heilbrigðisráðherra vegna COVID-19 tekur gildi 28. september n.k. og gildir til 18. október. Þær takmarkanir er snúa að íþróttum og áhorfendum eru óbreyttar frá fyrri auglýsingu. Sem fyrr eru íþróttir leyfðar svo framarlega sem sérsambönd ÍSÍ hafi gert sér reglur, með samþykki sóttvarnaryfirvalda, er varða æfingar og keppni í sinni grein. 

Ekki er breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Við iðkun íþrótta er það eingöngu á æfinga/keppnissvæði sem undanþága er veitt fyrir nálægðartakmörkunum. Áfram er óbreytt heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum.

Eins og áður eru það einstaklingsbundnu sóttvarnirnar og almennar smitvarnir sem mestum árangri skila í baráttunni gegn COVID-19.

Sjá frétt á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 864/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar

Frétt á heimasíðu ÍSÍ um leiðbeiningar vegna áhorfenda


Frétt á vefsíðu ÍSÍ 22. september 2020

Í samræmi við reglugerð heilbrigðisráðherra frá 7. september s.l. hefur ÍSÍ gefið út til sérsambanda sinna uppfærðar leiðbeiningar vegna áhorfenda á íþróttaviðburðum. Áhorfendur eru leyfðir með því skilyrði að 1 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými. Rými þurfa að vera algjörlega aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki er hægt að fara yfir. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Miðasala, salerni, veitingasala og önnur þjónusta sem í boði er skal vera aðskilin fyrir hvert rými fyrir sig. 

Stærsta breytingin frá fyrri leiðbeiningum er að börn 15 ára og yngri telja í fjöldatölu í áhorfendarýmum. Þannig að samkvæmt nýjum reglum er hámark í áhorfendasvæði 200 sem fyrr - en að meðtöldum börnum 15 ára og yngri. Auk þess þarf að vera samráð milli mótshaldara og sérsambands um sóttvarnarsvæði og áætlaðan áhorfendafjölda í hverju mannvirki. Leiðbeiningunum fylgja viðmið um hversu margir áhorfendur geta komist fyrir í áhorfendasvæði þannig að 1m fjarlægðarviðmið séu uppfyllt.

Leiðbeiningarnar má finna hér, megin tilgangur þeirra er að auðvelda mótshöldurum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til áhorfendasvæða og fjölda í þeim.

 
Frétt á vefsíðu ÍSÍ 4. september 2020
Ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tekur gildi 7. september n.k. Auglýsingin gildir til 27. september kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er eftir sem áður að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Sérsamböndum ÍSÍ ber að setja reglur um æfingar og keppni í sinni grein, með samþykki sóttvarnaryfirvalda, þar sem skilgreint er hvernig iðkun íþróttarinnar geti farið fram með þeim takmörkunum sem gilda.

Með nýrri auglýsingu er ekki breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Þegar auglýsingin tekur gildi breytast fjarlægðarviðmið og verða þau nú 1 metri í stað 2 metra reglu sem áður var í gildi. Við iðkun íþrótta er það eingöngu á æfinga/keppnissvæði sem undanþága er veitt fyrir nálægðartakmörkunum. Líkt og í síðustu reglum er heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru nú að 1 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými. Rými þurfa að vera algjörlega aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki er hægt að fara yfir. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Miðasala, salerni, veitingasala og önnur þjónusta sem í boði er skal vera aðskilin fyrir hvert rými fyrir sig.

Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir. Verum ábyrg! 

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar 3. september
Minnisblað sóttvarnarlæknis til ráðherra, dags. 2. september
 
Frétt á vefsíðu ÍSÍ 28. ágúst 2020

Í dag tók gildi auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðuneytið birti 25. ágúst sl. Auglýsingin gildir til 10. september kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19. Sérsamböndum ÍSÍ ber að setja reglur um æfingar og keppni í sinni grein, með samþykki sóttvarnaryfirvalda, þar sem skilgreint er hvernig iðkun íþróttarinnar geti farið fram með þeim takmörkunum sem gilda. Með nýrri auglýsingu er ekki breyting á ákvæðum er eiga við skilyrði fyrir æfingum og keppni. Iðkendur íþrótta eru undanþegnir 2 metra fjarlægðarreglu á æfingum og í keppni. Á það eingöngu við um keppnis/æfingasvæðið sjálft. 

Stærsta breytingin sem fylgir nýjum reglum er að sóttvarnaryfirvöld hafa veitt heimild fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru að 2 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 100 manns að hámarki í stúku/stæði. Mest er hægt að fá leyfi fyrir tveimur stúkum/stæðum við hvern leikvang séu þau aðskilin og enginn samgangur á milli þeirra.

Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir. Verum ábyrg!

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar 25. ágúst

Minnisblað sóttvarnarlæknis til ráðherra, dags. 21. ágúst

 

 
Frétt á vefsíðu ÍSÍ 14. ágúst 2020

Í dag tekur gildi auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðuneytið birti 12. ágúst sl. Auglýsingin gildir til 27. ágúst kl. 23:59. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er sem fyrr að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19.

Stærsta breytingin sem snýr að íþróttahreyfingunni er 6. grein auglýsingarinnar sem á við um nálægðartakmarkanir í íþróttum. Sérsambönd ÍSÍ eiga að setja sér reglur í samstarfi við ÍSÍ um framkvæmd æfinga og keppna í sínum greinum þannig að snertingar séu heimilar. Áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaviðburðum þann tíma sem auglýsingin gildir, samanber minnisblað sóttvarnalæknis. Yfirlit yfir þau sérsambönd sem fengið hafa reglur sínar staðfestar og reglur viðkomandi greinar verður hægt að nálgast á heimasíðu ÍSÍ.

Virða skal 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt virða 2 metra regluna.

Sem fyrr eiga ákvæði um fjölda- og nálægðartakmarkanir eingöngu við um fullorðna, þ.e.a.s. þau eiga ekki við um börn fædd árið 2005 og síðar.

Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir. Verum ábyrg!

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis til ráðherra, dags. 11. ágúst
Viðbót við minnisblað sóttvarnalæknis, dags. 12. ágúst
 
 
Frétt á vefsíðu ÍSÍ 4. ágúst 2020

 

ÍSÍ vekur athygli á því að frá 31. júlí er aftur regla að halda 2 metra fjarlægð. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að hafa tveggja metra fjarlægð á að nota hlífðargrímu sem hylur munn og nef.

 • Þegar hægt er að tryggja 2 metra á milli einstaklinga þarf ekki að nota hlífðargrímu og ekki er mælt með almennri notkun grímu á almannafæri.
 • Hlífðargríma kemur aldrei í stað almennra sýkingavarna sem alltaf skal viðhafa: þ.e. handhreinsun, almennt hreinlæti og þrif á snertiflötum.
 • Hlífðargríma kemur ekki í stað 2 metra reglunnar t.d. í verslunum og á skemmtistöðum.

Hlífðargrímur á að nota:

 • Í öllu áætlunarflugi, innanlands og milli landa.
 • Í farþegaferjum, ef ekki er hægt að hafa 2 metra fjarlægð milli einstaklinga. Athugið að ekki er þörf fyrir grímu ef farþegar sitja í eigin farartæki, lokuðu, í ferjunni.
 • Í öðrum almenningssamgöngum, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að 2 metra fjarlægð sé milli einstaklinga. Sérstaklega er mikilvægt að nota grímu í rútum frá flugvelli eftir sýnatöku á landamærum og á lengri leiðum með hópferðabílum, en í innanbæjarsamgöngum þar sem ferð er gjarnan innan við 30 mínútur er ekki skylda að nota grímu. Þar eru það fyrst og fremst einstaklingar í áhættuhópum sem ættu að nota grímu.
 • Við þjónustu við einstaklinga, sem krefst návígis, s.s. snyrtingu, nudd, sjúkraþjálfun, við tannlækningar, við augnlækningar og við heimahjúkrun.
 • Í öllum öðrum aðstæðum gilda reglur um fjöldatakmarkanir og 2 metra fjarlægð milli einstaklinga og geta hlífðargrímur ekki komið í stað þess.

Ekki er gerð krafa um að börn fædd 2005 og síðar beri grímur.
Í heilbrigðisþjónustu skal nota viðeigandi hlífðarbúnað.

Gæta ítrasta hreinlætis við notkun á grímum:
Hlutverk hlífðargrímu er að grípa dropa sem koma úr öndunarvegi þess sem ber hana, svo þeir dreifist ekki um umhverfið. Þetta gerir að verkum að notuð hlífðargríma er mjög menguð af örverum, sem eru alla jafna í munnvatni. Því þarf að gæta ítrasta hreinlætis við notkun grímurnar, snerta þær sem minnst og skipta um grímu þegar hún er orðin rök eða skemmd á einhvern hátt. Alltaf þarf að þvo eða spritta hendur eftir snertingu við notaðar hlífðargrímur.

Æskilegast er að nota einnota hlífðargrímur sem hent er eftir notkun í almennt sorp. Þvo hendur eða spritta eftir snertingu við grímuna. Æskilegt er að miða að hámarki við 4 klst. uppsafnaða eða samfellda notkun og henda þá grímunni.

Margnota grímur úr taui má einnig nota en nauðsynlegt er að þær séu úr efni sem má þvo og þarf að lágmarki að þvo þær daglega. Sama gildir um margnota grímur og einnota grímur, þær mengast að utan og því á að snerta þær sem allra minnst. Þvo eða spritta hendur á eftir. Nánari leiðbeiningar um slíkar grímur eru væntanlegar.

Hafið í huga:

 • Ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri
 • Rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingahættu
 • Einnota gríma, sem notuð er oftar en einu sinni, gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingarhættu
 • Hlífðargríma, sem hylur ekki bæði nef og munn, gerir ekkert gagn
 • Hlífðargríma, sem er höfð á enni eða undir höku, gerir ekkert gagn

Leiðbeiningar frá vinnuhópi Evrópusambandsins um gerð margnota hlífðargríma.

ÍSÍ hvetur fólk til að gæta að sóttvörnum, svo sem handþvotti, sótthreinsun og 2ja metra mörkunum.

Embættis landlæknis
Covid.is
Íþróttahreyfingin og COVID-19

 

 

 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 31. júlí 2020 - Breyting á takmörkun á samkomum og nálægðartakmörkun

 

Á hádegi í dag, 31. júlí, tók gildi ný auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og er gildistími hennar til 13. ágúst næstkomandi. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins, sem því miður er nú aftur í vexti hér á landi.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að fjöldasamkomur, þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman, eru óheimilar á gildistíma auglýsingarinnar. Gilda reglurnar jafnt um opinber rými sem og einkarými og eru íþróttaviðburðir þar með taldir. Ákvæðið um fjöldatakmörkun (3. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Skylt er að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi. Ákvæði um nálægðartakmörkun (4. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar. 

Í auglýsingunni kemur einnig fram að í starfsemi þar sem notaður er sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi, starfsemi líkamsræktarstöðva, spilasala og spilakassa skal búnaður sótthreinsaður milli notenda. 

ÍSÍ óskaði eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna og fékk rétt í þessu til baka tilmæli um eftirfarandi:

1.     Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi. 
2.     Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
3.     Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir.

Verum ábyrg!

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:

Auglýsing um samkomubann vegna farsóttar - 30. júlí 2020.

Minnisblað sóttvarnarlæknis 29. júlí 2020.

 
 
Frétt á vefsíðu ÍSÍ 3.7.2020 - Fjöldatakmörk á samkomum óbreytt til 26. júlí 2020

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja auglýsingu um takmörkun á samkomum óbreytta um þrjár vikur, þ.e. til 26. júlí. Fjöldatakmörk á samkomum miðast því áfram við 500 manns.

Minnisblað sóttvarnalæknis frá 29. júní 2020.

Þá hefur heilbrigðisráðherra einnig samþykkt tillögu sóttvarnalæknis um breyttar reglur vegna skimunar á landamærum.

Íslendingar og aðrir sem búsettir eru hér á landi og taldir eru hafa hér útbreitt tengslanet verður,við komuna hingað til lands, áfram gert að fara í 14 daga sóttkví eða skimun á landamærum. Ofangreindum einstaklingum verði gert að fara í sóttkví eftir sýnatöku. Þessum einstaklingum verði boðin sýnataka 4-5 dögum eftir upphaf sóttkvíar og ef niðurstaða rannsóknar sýnir ekki merki um veirun þá verði sóttkví hætt. Jákvætt sýni þýðir hins vegar 14 daga einangrun. 

Önnur sýnatakan verði skipulögð af sóttvarnalækni í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu, heilsugæsluna, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis. Önnur sýnataka verði einstaklingum gjaldfrjáls. 

Stefnt er að því að þessi framkvæmd geti hafist ekki síðar en 13. júlí n.k.

Minnisblað sóttvarnalæknis frá 2. júlí 2020 varðandi skimanir á landamærum og sóttkví ferðamanna.


Bréf til sambandsaðila ÍSÍ 2. júlí 2020

Á blaðamannafundi almannavarna í gær var minnt á reglur sem í gildi eru um takmarkanir í samkomubanni.
Minnisblað sóttvarnalæknis og yfirlögregluþjóns má sjá hér. Í minnisblaðinu er verið að árétta þær reglur sem eru í gildi um fjöldatakmarkanir og hólfaskiptingu, hvort heldur er innandyra eða utanhúss.

Meðal þess sem fram kemur í minnisblaðinu er:

1. Fjöldatakmörkun er 500 manns á hverju svæði/sóttvarnarhólfi
2. Tryggja með sýnilegum hætti tveggja metra svæði á milli svæða/sóttvarnarhólfa
3. Tryggja þarf að ekki sé blöndun á milli svæða
4. Hafa þarf salerni, veitingasölu og aðra þá þjónustu sem boðið er uppá aðskilið fyrir hvert svæði fyrir sig
5. Aðgengi að handþvotti og handspritti
6. Sótthreinsun áhalda, tækja og fleti sem fleiri en einn snertir
7. Viðhafa tveggja metra fjarlægðarregluna eftir því sem unnt er

Allir Íslendingar sem koma til landsins munu þurfa að fara í seinni skimun 4-5 dögum frá komu til landsins. Hvetja þarf alla til að sýna ábyrgð og virða þær reglur sem í gildi eru.

Leiðbeiningar fyrir íþróttamannvirki og sundlaugar voru uppfærðar 30. júní sl. og er nýjustu útgáfuna að finna hér.

Einnig viljum við minna á rakningarsmáforritið sem er mikilvægur hlekkur í því viðamikla starfi sem er í gangi vegna Covid-19.
Því fleiri sem nota forritið, því betri og skilvirkari eru upplýsingarnar sem hægt er að vinna úr því.
Gott er að minna á forritið við skráningu í mót og viðburði á vegum íþróttahreyfingarinnar.

Hér má sjá veggspjöld sem hægt er að prenta út og hengja upp sem víðast til að minna okkur á sóttvarnir.
Einnig er hægt að nálgast fræðsluefni og veggspjöld inn á www.covid.is.

Vinsamlegast komið ofangreindu á framfæri sem víðast innan ykkar vébanda.


Bréf til sambandsaðila ÍSÍ 14. júní 2020

Þann 15. júní næstkomandi tekur gildi auglýsing heilbrigðisráðherra um frekari tilslökun á samkomubanni vegna COVID-19. Meginbreytingin felst í því að fjöldamörk á samkomum hækka úr 200 í 500 manns. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis í meðfylgjandi minnisblaði til ráðherra. 

Fyrsta aflétting á samkomutakmörkunum var gerð þann 4. maí síðastliðinn, önnur aflétting var gerð 18. maí og þriðja aflétting var gerð 25. maí. Engin aukning smita hefur sést í kjölfar þessara tilslakana.

Auglýsing heilbrigðisráðherra
Minnisblað sóttvarnalæknis

Áfram er hvatt til að gæta að sóttvörnum, svo sem handþvotti, sótthreinsun og 2ja metra mörkin eftir því sem það er unnt, og virða gildandi reglur um samkomubann.

ÍSÍ hvetur alla til að kynna sér vel þær breytingar sem fram koma í nýrri auglýsingu og koma þessum upplýsingum á framfæri til íþróttafélaga/deilda og á alla þá sem gætu haft gagn af .

Embættis landlæknis
Covid.is
Íþróttahreyfingin og COVID-19

 

Bréf til sambandsaðila ÍSÍ 8. júní 2020

Embætti landlæknis hefur nú uppfært leiðbeiningar fyrir íþróttamannvirki sem nú eru komnar á vef Embættis landlæknis, www.covid.is.

Í þessari uppfærslu (5. júní 2020) eru helstu breytingar frá fyrra skjali að tveir kaflar hafa bæst við:

 • um golfiðkun
 • um almenningshlaup

Leiðbeiningarnar er að finna hér.

Einnig er rétt að benda á að það er búið að útbúa ýmar leiðbeiningar bæði fyrir fyrirtæki og þjónustuaðila sem sjá má hér

Þar er til að mynda tengill á Leiðbeiningar fyrir sund- og baðstaði og baðstaði í náttúrunni sem sjá má hér.

ÍSÍ hvetur alla til að kynna sér þetta vel og koma þessum upplýsingum á framfæri við þá sem gætu haft gagn af.

 

Bréf til sambandsaðila ÍSÍ 25. maí 2020

Hér meðfylgjandi eru vefslóðir á nýjar leiðbeiningar vegna COVID-19, annars vegar varðandi íþróttamannvirki og hins vegar varðandi sundlaugar, ykkur til upplýsingar:

Leiðbeiningar fyrir íþróttamannvirki vegna COVID-19

Leiðbeiningar fyrir sund- og baðstaði og baðstaði í náttúrunni vegna COVID-19

Ofangreindar leiðbeiningar eru kannski ætlaðar forstöðumönnum íþróttamannvirkja og sundlauga en eru engu að síður upplýsandi og leiðbeinandi fyrir íþróttahreyfinguna almennt.

 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 22. maí 2020 - Íþróttaiðkun án takmarkana

Nú rétt í þessu birti heilbrigðisráðherra nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Takmörkun á samkomum, skv. nýju auglýsingunni, tekur gildi 25. maí nk. kl. 00:00 og gildir til 21. júní nk. kl. 23:59.

Íþróttahreyfingunni til mikillar gleði þá getur íþróttaiðkun allra aldurshópa í landinu nú farið fram án takmarkana. Áfram verða þó fjöldatakmarkanir á íþróttaviðburðum sem og öðrum viðburðum, þannig að ekki mega fleiri en 200 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Það þýðir takmarkanir á fjölda áhorfenda á íþróttaviðburðum.

Við hvetjum alla í íþróttahreyfingunni til að lesa nýju auglýsinguna vel, kynna sér innihald hennar vandlega og fara í einu og öllu eftir tilmælum og reglum yfirvalda.

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Frétt heilbrigðisráðuneytis um nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Minnisblað sóttvarnalæknis.

 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 21. apríl 2020 - Íþróttastarf barna og ungmenna eftir 4. maí

Í dag, 21. apríl, birti heilbrigðisráðherra nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Takmörkun á samkomum tekur gildi 4. maí 2020 kl. 00.00 og gildir til 1. júní 2020 kl. 23.59. Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Íþrótta- og æ
skulýðsstarf barna á leik- og grunnskólastigi:

 • Engar fjöldatakmarkanir verða settar á iðkendur.
 • Öll íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, inni og úti, verði leyfð.
 • Skíðasvæði verði opin fyrir æfingar barna og unglinga.
 • Sundlaugar, búnings- og sundaðstaða verði opin fyrir sundæfingar barna og unglinga.
 • Keppni í íþróttum barna á leik- og grunnskólastigi verði heimil án áhorfenda.
 • Hvatt verði til sérstaks hreinlætis og handþvottar.


Íþróttastarf fullorðinna:

 • Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll.
 • Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
 • Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
 • Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
 • Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda. 
 • Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
 • Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.

ÍSÍ hvetur fólk til að skoða öll gögnin vandlega og vera í sambandi ef eitthvað er óljóst eða spurningar vakna.

Sóttvarna- og heilbrigðisyfirvöld eru í góðu samstarfi við ÍSÍ og UMFÍ og taka fagnandi ábendingum og fyrirspurnum er varða íþróttastarfið og COVID-19.


Fylgiskjöl:

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra dags. 19. apríl

 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 15. apríl 2020 - 500 milljónir til íþrótta- og æskulýðsstarfs 

Samkvæmt frétt á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis í gær munu 500 milljónir króna renna til íþrótta- og æskulýðsstarfs til að mæta áhrifum COVID-19.

Vinnuhópurinn sem framkvæmdastjórn ÍSÍ skipaði 25. mars síðastliðinn vinnur að útfærslum varðandi skiptingu þess fjár sem renna mun til íþrótta af þessum 500 milljónum. Guðrún Inga Sívertsen, fyrrverandi varaformaður KSÍ leiðir hópinn og með henni eru Hörður Þorsteinsson formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar og fyrrverandi framkvæmdastjóri GSÍ og Sigurjón Pétursson varaforseti Alþjóðakraftlyftingasambandsins sem einnig er fyrrum formaður KRAFT og fyrrum varaformaður HSÍ.

Stuðningur þessi byggir á þingsályktunartillögu um fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins, sem samþykkt var á Alþingi þann 30. mars sl. Hefðbundin menningarstarfsemi og íþrótta- og æskulýðsstarf hefur nánast lagst af á undanförnum vikum og stór hópur fólks og félaga orðið fyrir miklum tekjumissi.


Frétt á vefsíðu ÍSÍ 15. apríl 2020 - Íþróttastarf leyfilegt með takmörkunum 4. maí

Forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra kynntu á blaðamannafundi í gær næstu skref stjórnvalda vegna Covid-19. Heilbrigðisráðherra gerði þar grein fyrir ákvörðun sinni um tilslakanir á takmörkunum á samkomum, skólahaldi og skipulögðu íþróttastarfi. Breytingarnar taka gildi 4. maí. Sóttvarnalæknir leggur til að slakað verði á takmörkunum í skrefum sem endurskoðuð verði með þriggja til fjögurra vikna millibili.

Skipulagt íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum

 • Ekki fleiri en 50 einstaklingar verða saman í hóp.
 • Halda skal tveggja metra fjarlægð eftir því sem það er unnt, einkum hjá eldri börnum.

Annað skipulagt íþróttastarf er heimilt utandyra með eftirfarandi takmörkunum:

 • Ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman.
 • Snertingar eru óheimilar og halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga.
 • Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.

Aðrar breytingar sem verða 4. maí næstkomandi og fylgiskjöl má sjá í frétt á vef Stjórnarráðsins hér.

 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 4. apríl 2020 - Bréf frá forseta ÍSÍ til sveitarfélaga: Mikilvægi sveitarfélaga á erfiðum tímum

Forseti ÍSÍ hefur sent öllum sveitarfélögum á landinu bréf þar sem hann þakkar fyrir stuðning þeirra við íþróttahreyfinguna og hvetur þau til að eiga samtöl við íþrótta- og ungmennafélögin í landinu og fylgjast vel með því hvernig mál þróast. Mikilvægt er að íþróttahreyfingin verði í stakk búin til að hefja starf af fullum krafti um leið og yfirvöld leyfa.
Jafnframt voru þau sveitarfélög sem bjóða upp á frístundastyrki, sem nýta má til ástundunar íþrótta- og æskulýðsstarfs, hvött til að skoða vel hvort unnt sé að hækka, að minnsta kosti tímabundið, upphæð frístundastyrkja. Gera má ráð fyrir því að mörg heimili í landinu búi við skert tekjuflæði fyrstu mánuðina eftir að atvinnu- og frístundalífið kemst í eðlilegt horf og þá er viðbúið að frístundir verði ofarlega á listanum yfir það sem skera verður niður í rekstri heimilanna.

„Sveitarfélögin á Íslandi hafa á undanförnum áratugum verið bakhjarl íslenskra íþrótta- og ungmennafélaga. Þau hafa staðið sig gríðarlega vel í því hlutverki hvort sem horft er til uppbyggingar íþróttamannvirkja eða til þess að skapa fjárhagslega umgjörð um félögin. Nú liggur fyrir að mörg íþrótta- og ungmennafélög munu lenda í fjárhagsvanda að afloknu samkomubanni. Búast má við að töluvert erfiðara verði a.mk. fyrst um sinn að fá styrki til íþróttastarfsins frá fyrirtækjum landsins til að standa straum af rekstrarkostnaði auk þess sem viðbótarkostnaður kann að leggjast á þau m.a. vegna mögulegra framlenginga á íþróttastarfi vetrarins fram á sumarið. Mikil óvissa verður að minnsta kosti hjá mörgum félögum um framhaldið og finnum við mjög fyrir því að margir stjórnendur þeirra kvíða næstu mánuðum“, segir meðal annars í bréfi forsetans.

Í kjölfar útsendingar á bréfinu hafa nokkur sveitarfélög sett sig í samband við ÍSÍ og veitt upplýsingar um hvernig þau hafa þegar brugðist vel við þeim aðstæðum sem við íþróttahreyfingunni blasir.

Bréfið má lesa í heild sinni með því að smella hér.

 

Fréttatilkynning frá ÍSÍ og UMFÍ 3. apríl 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Tilmæli varðandi fyrirspurnir um endurgreiðslu æfingagjalda vegna COVID-19

Í ljósi fordæmalausra aðstæðna af völdum kórónafaraldursins, takmarkana á skólahaldi og samkomubanns sem veldur því að íþróttastarf liggur niðri hafa vaknað spurningar um endurgreiðslu æfingagjalda íþróttafélaga. ÍSÍ og UMFÍ hafa leitað ráðgjafar varðandi endurgreiðslu æfingagjalda.

Samkvæmt þeirri ráðgjöf eru þessar aðstæður sem nú eru uppi dæmi um ytri atvik sem ekki voru fyrirséð og ekki unnt að koma í veg fyrir. Sú staðreynd að íþróttafélög geta ekki veitt þjónustu sína telst því almennt ekki vanefnd gagnvart iðkendum. Iðkendur geta því ekki krafist þess að æfingar fari fram með hefðbundnu sniði né krafist skaðabóta vegna þess að æfingar hafa fallið niður. Hins vegar þarf að koma til móts við iðkendur vegna þess tímabils sem æfingar liggja niðri.

ÍSÍ og UMFÍ mæla með því að félögin haldi áfram að þjónusta iðkendur með fjar- og heimaæfingum eins og best er kostur. Þá er einnig mælt með því að félögin komi til móts við iðkendurna og forráðamenn þeirra með því að lengja æfingatímabilið eða bjóða upp á aukaæfingar og/eða námskeið. Tímalengd og fyrirkomulag ræðst af því hversu mikla þjónustu félögin hafa getað veitt á meðan samkomubannið varir.

Aðstæður og uppsetning æfingafyrirkomulags er gífurlega mismunandi milli eininga í íþróttahreyfingunni og því mjög erfitt að gefa eitt algilt svar fyrir hreyfinguna umfram það sem hér kemur fram.

Ljóst er að allir landsmenn standa saman gegn vágestinum sem nú skekur heimsbyggðina. Aðdáunarvert að sjá að allir leggja sitt af mörkum til að hefta útbreiðslu hennar. Margir leggja mikið á sig í því verki. Starfsfólk, þjálfarar og iðkendur íþróttafélaga hafa þrátt fyrir aðstæður reynt eftir bestu getu að uppfylla skyldur sínar þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður og hvetjum við til þess að svo verði áfram.

ÍSÍ og UMFÍ leggja áherslu á í tilmælum sínum að ábyrgð og ákvörðun um tilhögun og ráðstöfun æfingagjalda er alfarið á forræði aðildarfélaganna sjálfra og/eða deilda þeirra.

 

Frétt á vefsíðu ÍSÍ 3. apríl 2020 - Samkomubann framlengt til 4. maí

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja til 4. maí þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum veldur áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hefur fjölgað hratt.

Takmörkunum verði aflétt í áföngum
Engar breytingar verða á gildandi takmörkunum á samkomum og skólahaldi aðrar en framlengdur gildistími til 4. maí. Á tímabilinu verður undirbúin áætlun um hvernig best megi standa að því að aflétta gildandi takmörkunum í áföngum. Stefnt er að því að kynna þau áform fyrir lok þessa mánaðar.

Veittar undanþágur halda gildi
Undanþágur sem veittar hafa verið frá takmörkunum á samkomum og skólahaldi munu halda gildi sínu sem nemur framlengingu aðgerða, þ.e. til 4. maí næstkomandi. Áréttað er að undanþágur eru því aðeins veittar að mikið sé í húfi, þ.e. í þágu allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu.

Fréttin birtist á vef Stjórnarráðsins og má lesa hér í heild sinni

 

Fréttatilkynning frá ÍSÍ 24. mars 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli

Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda.
Jafnframt hefur Alþingi samþykkt lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun þá gildir þetta úrræði meðal annars fyrir launþega og vinnuveitendur innan íþróttahreyfingarinnar og vill ÍSÍ vekja athygli íþróttahreyfingarinnar á þessum stuðningi við starfsemi hreyfingarinnar.

Minnkað starfshlutfall:
Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nú þegar sótt um en þeir fylla út hefðbundna umsókn um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun leggur nú kapp á að vinna að stafrænni útfærslu fyrir umsókn launamanna og er ekki hægt að sækja um minnkað starfshlutfall á vef Vinnumálastofnunar meðan á þeirri vinnu stendur.

Athugið að launamenn geta ekki sótt um þessar greiðslur í augnablikinu þar sem umsóknarformið er ekki tilbúið. Atvinnurekendur geta enn fremur ekki skilað inn nauðsynlegum staðfestingum frá sér þar sem stafræn lausn þar að lútandi er ekki tilbúin.Vinnumálastofnun mun gefa út tilkynningu þegar umsóknargrunnurinn er tilbúinn og einstaklingar sem fara í minnkað starfshlutfall geta sótt um. Allar umsóknir munu gilda afturvirkt frá 15. mars.

Fólk er vinsamlegast beðið um að sýna biðlund vegna mikils álags á skrifstofu Vinnumálastofnunar og hvatt til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu stofnunarinnar.

Greiðslur í sóttkví:
Unnið er að tæknilegum lausnum vegna greiðslna í sóttkví. Um leið og það ferli skýrist nánar og lausnirnar verða tilbúnar mun Vinnumálastofnun birta tilkynningar þess efnis á vef stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fylgjast vel með þeim uppfærslum sem þar munu birtast og hefja strax undirbúning umsókna, ef fyrirhugað er að nýta þetta úrræði.
Hér eru vefslóðir á helstu upplýsingar skv. ofangreindu:

Vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/minnkad-starfshlutfall

Vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/greidslur-i-sottkvi

Vinnumalastofnun.is/upplysingar-vegna-covid-19/spurt-og-svarad-vegna-covid-19


Fréttatilkynning frá ÍSÍ 22. mars 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Heilbrigðisráðherra kynnti í gær að á miðnætti í dag, þann 23. mars kl. 24:00 tekur í gildi hert samkomubann.

Það þýðir að allar samkomur eru takmarkaðar við 20 manns hvort heldur er í opinberum rýmum eða einkarýmum og jafnframt er krafa um að tveggja metra fjarlægðarviðmiðinu sé framfylgt. Hreinlæti og sóttvörnum skal fylgt eftir sem áður.

Hér er að finna fyrirmælin í heild sinni, vinsamlegast kynnið ykkur þau vel.

Hér er að finna leiðbeiningar fyrir áhættuhópa og einstaklinga sem eru í umgengni við þá sem teljast í áhættuhópi.

Bæði skjölin er að finna á www.covid.is á íslensku, ensku og pólsku.

Fréttatilkynning frá ÍSÍ og UMFÍ 20. mars 2020 til sambandsaðila ÍSÍ

Allt íþróttastarf fellur niður

Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur sent frá sér leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.

Hvað varðar íþróttastarf barna og ungmenna er eftirfarandi beint til íþróttahreyfingarinnar:

„...að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur."

Hvað varðar íþróttaiðkun fullorðinna þá er eftirfarandi beint til til íþróttahreyfingarinnar:

„...er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi."

Jafnframt hvetja ráðuneytin skipuleggjendur íþróttastarfs til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.

Eftirfarandi árétting barst frá sóttvarnalækni í dag í tilefni útgáfu leiðbeinandi viðmiða frá heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti:

„Sóttvarnalæknir vill árétta að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.
Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.
Sóttvarnalæknir vill beina því til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að, líkt og gert hefur varðandi börn og ungmenni, að tekið verði hlé í æfingum og keppnum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þeirra á meðan samkomubann varir.“ (birt á Facebook síðu Almannavarna).

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og UMFÍ treysta því að öll íþróttahreyfingin muni fara að þessum afgerandi tilmælum og að allt íþróttastarf falli tímabundið niður.
Það er augljóslega ekki auðvelt fyrir íþróttahreyfinguna en við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að þjóðin standi saman sem einn maður og að íþróttahreyfingin sýni fulla samstöðu og ábyrgð.

Við viljum jafnframt minna á mikilvægi þess að landsmenn haldi áfram að hreyfa sig þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þá er mikilvægt að félögi haldi áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er, með fjar- og heimaæfingum.

Leiðbeiningar frá ráðuneytunum í heild sinni er að finna hér

 

Tilkynning frá ÍSÍ 15. mars til sambandsaðila ÍSÍ - English version here

Íþróttastarfið í samkomubanni (pdf)

Í samskiptum ÍSÍ við landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur komið fram að vegna mikill anna við að koma af stað starfi í leik- og grunnskólum landsins, í samræmi við þær reglur um nú gilda, hefur ekki náðst að ljúka undirbúningi fyrir þátttöku leik- og grunnskólabarna í íþróttastarfi. Því má gera ráð fyrir því að röskun verði á íþróttastarfi næstu daga þangað til íþróttafélög, skólasamfélagið og sveitarfélög hafa komið sér niður á lausnir til að halda úti starfi með þeim takmörkunum sem munu gilda næstu fjórar vikurnar. Í samskiptum við ofangreinda aðila hefur komið fram að til að unnt sé að undirbúa þetta verkefni og útfæra þær takmarkanir sem nú eru í gildi með fullnægjandi hætti væri heppilegt að gera ekki ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir þennan aldurshóp fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars nk. ÍSÍ mælist til að farið verði eftir þessum tilmælum.

Varðandi íþróttaiðkun fullorðinna, þá er litið svo á að hún sé heimil að uppfylltum skilyrðum sem koma fram í auglýsingu heilbrigðisráðherra um samkomubann, þ.e. að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar inn í sama rými, hvort sem um er að ræða innan- eða utandyra. Þá skal sjá til þess, eftir því sem unnt er, að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga, gera ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa búnað eða æfingasvæði daglega og tryggja aðgengi að hreinlætisaðstöðu til handþvotta og sótthreinsunar. Ljóst er að þessi skilyrði munu útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina. Íþróttafélögin, hvert fyrir sig, þurfa að koma því á framfæri við sína iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið. Rétt er að ítreka að það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru.

Við lifum nú fordæmalausa tíma og það er mikilvægt að allir taki höndum saman um að gera þá eins bærilega og kostur er. Sóttvarnalæknir, landlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa unnið mjög gott starf við að bregðast við þeirri vá sem að okkur sækir. Með samstöðu og því að allir fylki sér að baki þeirra reglna sem þessi embætti hafa gefið út má því ætla að við eigum að geta komist í gegnum þennan tíma á eins farsælan hátt og mögulegt er.

ÍSÍ er í stöðugu sambandi við yfirvöld og mun deila út til íþróttahreyfingarinnar upplýsingum um leið og þær berast. ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína, eftir sem áður, að fylgjast vel með þróun mála á upplýsingasíðum yfirvalda. Atburðarrás er hröð þessa dagana og gefa verður svigrúm til að láta reyna á útfærslur og túlkun nýrra reglna. Reynt verður að miðla upplýsingum til íþróttahreyfingarinnar um leið og nýjar upplýsingar koma fram.  

 

Tilkynning frá ÍSÍ 13. mars til sambandsaðila ÍSÍ

Frá og með mánudeginum 16. mars kl. 00:01 mun taka gildi samkomubann á landinu sem gilda mun í fjórar vikur eða til og með 12. apríl nk. Þetta bann hefur víðtæk áhrif á íþróttahreyfinguna því í takmörkuninni felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma bannsins. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 100 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Íþróttaviðburðir falla þarna undir. Í takmörkuninni felst einnig að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli eftir því sem unnt er, rými skipulögð með þeim hætti að hægt sé að hafa a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga.

Auglysing um takmorkun a samkomum vegna farsottar.pdf

Takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar mun taka gildi 16. mars og gildir til 12. apríl nk. Heimilt er að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki á milli hópa. 

Auglysing um takmorkun a skolastarfi vegna farsottar.pdf