Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
25

Samantekt frá 4. keppnisdegi á Smáþjóðaleikunum

01.06.2023

 

Hér er samantekt frá 4. keppnisdegi.  Sólin skín skært og er hiti um 20-24 gráður dag hvern.  

Borðtennis:

Karlaliðið hóf daginn á leik við Andorra í tvíliðakeppninni og unnu þann leik 3-1 í leik.  Næsti leikur var við Svartfjallaland sem því miður tapaðist 1-3, en hann var jafn og spennandi allan tímann.  Síðasti leikurinn var við Lúxemborg, þar sem strákarnir spiluðu vel og töpuðu 0-3 eftir mjög spennandi viðureignir. Kvennaliðið spilaði við Lúxemburg, sýndu flotta takta og spiluðu vel en töpuðu því miður.  Næsti leikur var við ofurlið Möltu, en þær voru allan tímann sterkari og tapaðist sú viðureigin.   Einliðaleikir hefjast á morgun kl.10.30.

Frjálsar:

Birna Kristín Kristjánsdóttir og Glódís Edda Þuríðardóttir kepptu til úrslita í 100m grindahlaupi kvenna. Glódís hrasaði því miður svo hún kláraði ekki hlaupið. Birna Kristín hljóp vel og kom fjórða í mark á tímanum 14,33s  sem er bæting á hennar besta árangri um hálfa sekúndu.
Sæmundur Ólafsson keppti til úrslita í 400m hlaupi karla og kom í mark í sjöunda sæti á tímanum 48,76s.
Ingibjörg Sigurðardóttir keppti í úrslitum 400m hlaups kvenna og kom sjötta í mark á tímanum 57,59s sem er einungis tveimur hundraðshlutum frá hennar besta tíma utanhúss. Ingibjörg er að keppa í fyrsta sinn fyrir landsliðið í fullorðinsflokki.
Ísak Óli Traustason keppti í 110m grindahlaupi karla og hljóp á 14,94s. Hann endaði sjötti á tímanum 15,40s. 
Sindri Lárusson keppti í úrslitum kúluvarps karla. Hann kastaði lengst 16,42m sem setti hann í fimmta sætið. 
Kristófer Þorgrímsson og Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson tóku þátt í undanúrslitum í 200m hlaupi. Anthony hljóp í fyrri riðlinum og kom þar fjórði í mark á 22,35s.  Kristófer hljóp í síðri riðlinum og náði fjórða sæti á 21,75s, sem er bæting á hans besta árangri um 19 hundraðshluta.  Kristófer náði í úrslit sem fara fram á laugardag en litlu munaði að Anthony kæmist líka í úrslit.

Siglingar:

Keppt var í bæði Optimist senior og Ilca 6 í dag. Þrjár keppnir í hvoru náðust og gekk keppendum vel í dag.  Stigasöfnun heldur áfram og verður áframhaldandi keppni á morgun. Hér má finna úrslit í Optimist flokknum og hér má finna úrslit í Ilca 6.

Sund:

Snæfríður Sól Jórunnardóttir hélt uppteknum hætti og setti sitt fjórða Íslandsmet á leikunum þegar hún synti vann gullverðlaun í 200m skriðsund á tímanum 1;58,91.  Gamla metið átti hún sjálf 1:59,75 sem hún setti í mars sl.  Karlasveitin í 4x100m fjórsundi synti á nýju íslandsmet 3;46,66 þegar þeir tóku 3.sætið í dag en gamla metið var 3;47,67.  Það var sett á  Smáþjóðaleikunum í San Marino í júní 2017.  Sveitin var skipuð þeim Guðmundi Leo Rafnsyni, Antoni Sveini McKee, Símoni Elíasi Statkevicius og Ýmii Sölvasyni.

Anton Sveinn McKee sigraði í 100m bringusundi á tímanum 1;01,35 og kvennasveitin tryggði sér annað sæti í 4x100m fjórsundi á tímanum 4;16,12.  Sveitin var skipuð þeim Ylfu Lind Kristmannsdóttur, Birgittu Ingólfsdóttur, Völu Dís Cicero og Snæfríði Sól Jórunnardóttur.  Jóhanna Elin Guðmundsdóttir bætti tíma sinn í 50m skriðsundi og tryggði sér bronsverðlaun.  Birgitta Ingólfsdóttir vann einnig bronsverðlaun þegar hún synti 100m bringusund á 1:11,74 og bætti tímann sinn.

Síðan voru keppendur að bæta tímann sinn til muna og ná góðum bætingum.

Skvass:

Þá hefur skvassliðið lokið keppni en niðurstaðan er 4. sæti eftir tap í leik um brons á móti Lúxemborg.  Leikurinn endaði 1-3 fyrir Lúxemborg.  Framundan er hvíld og æfing hjá liðinu.

Ekki var keppt í skotfimi í dag og tennisliðið hefur lokið keppni.  Keppni heldur áfram í siglingum, skotfimi, sundi og borðtennis á morgun en hægt er að fylgjast með á heimasíðu leikanna hér og úrslitasíðan er hér.

 
 

Myndir með frétt