Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Umfangsmiklar stuðningsaðgerðir við íþróttastarf í undirbúningi

31.10.2020

Nú rétt í þessu birtist fréttatilkynning frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um umfangsmiklar stuðningsaðgerðir við íþróttastarf í landinu. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Daði Einarsson félags- og barnamálaráðherra kynntu fyrirhugaðar aðgerðir fyrir forystu íþróttahreyfingarinnar á fjarfundi í morgun.

Í aðgerðum stjórnvalda verður stefnt á að útvíkka úrræði Vinnumálastofnunar þannig að tryggt verði að í þeim tilvikum sem íþróttafélagi eða samstarfsaðilum ÍSÍ er gert að láta af starfsemi sinni vegna sóttvarna geti félagið sótt um styrki vegna launagreiðslna til starfsmanna sem ekki geta sinnt starfi sínu á því því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir enda hafi önnur úrræði stjórnvalda ekki gagnast í þessum tilgangi. Einnig verði þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar af sömu ástæðum. Styrkfjárhæðir skuli verða sambærilegar og önnur úrræði stjórnvalda hafa innifalið og gert verði ráð fyrir að þetta muni gilda frá 1. október sl.

Þá verður íþrótta- og æskulýðsfélögum, ásamt sambandsaðilum ÍSÍ, gert kleift að sækja um sérstaka styrki vegna tekjufalls á tímabilinu 1. júní sl. til 1. október sl. Einnig verður þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar frá 1. október sl. og þar til starfsemi hreyfingarinnar kemst í eðlilegt horf. Orsakir þessa tekjufalls og verktakagreiðslna þurfa að hafa verið vegna sóttvarna á því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands mun sjá um umsýslu aðgerðarinnar.

Endanlegar útfærslur á tillögunum verða unnar í samstarfi við íþróttahreyfinguna og gert er ráð fyrir að útfærslan liggi fyrir eigi síðar en 10. nóvember.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:  „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íþróttahreyfinguna að fá þessa afstöðu nú þegar búið er að loka fyrir íþróttastarfið enn á ný og alger óvissa er um hvenær hægt er að hefja það að nýju. Mörg af félögum ÍSÍ voru farin að sjá fram á þurfa að segja upp starfsfólki en hættu við þær fyrirætlanir sínar þegar fréttist af þessum væntanlegu aðgerðarpökkum. Úrræði Vinnumálastofnunar hafa fram að þessu ekki nýst vel fyrir íþróttahreyfinguna en nú verður breyting á því. Heimildir íþróttahreyfingarinnar til að leita stuðnings vegna launa-og verktakagreiðslna þegar sóttvarnaraðgerðir hindrar starfsemi hennar verður risastórt öryggisnet fyrir starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Við erum mjög ánægð með þessar fyrirætlanir. Að fá einnig stuðning frá  stjórnvöldum vegna tekjufalls á tímabilinu júní til september, líkt og gert var vegna tímabilsins mars til maí, er mjög mikilvægt fyrir íþróttahreyfinguna og hjálpar til við að koma starfseminni af stað aftur þegar slakað verður aftur á sóttvarnaaðgerðum.Við erum afar þakklát fyrir þann skilning sem stjórnvöld hafa á mikilvægi íþróttastarfs í landinu og þessir aðgerðarpakkar sem verið er að vinna að  fylla okkur bjartsýni að nýju um að hægt verði að halda úti öflugu íþróttastarfi þegar takmörkunum sem við nú búum við verður aflétt.“

Fréttatilkynningu ráðherranna má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Mynd: Af vef Stjórnarráðs Íslands. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Daði Einarsson félags- og barnamálaráðherra.

Mynd: ÍSÍ. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ.

Myndir með frétt