Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Ólympíuhlaup ÍSÍ - Sunnulækjarskóli

21.10.2020

Ólympíuhlaup ÍSÍ hefur farið fram í grunnskólum landsins undanfarnar vikur, en verkefnið hófst formlega þann 8. september síðastliðinn.

Þann 10. október voru þrír skólar dregnir út sem höfðu lokið hlaupinu og skilað inn upplýsingum til ÍSÍ. Alls voru 76 skólar í pottinum og einn þeirra skóla sem dreginn var út var Sunnulækjarskóli á Selfossi. Hinir tveir voru Grunnskóli Snæfellsbæjar og Foldaskóli í Reykjavík en hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, verslun sem selur vörur til íþróttaiðkunar og nýtast munu nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.

Með Ólympíuhlaupinu er leitast við að hvetja nemendur í grunnskólum landsins til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta valið um þrjár vegalengdir, þ.e. 2,5 km, 5 km og 10 km. Þátttakan í ár er mjög góð nú þegar hafa 16.521 grunnskólanemar hlaupið 67.178 kílómetra.

Samkvæmt upplýsingum frá Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK) hafa átta skólar á Suðurlandi tekið þátt í hlaupinu, en enn er hægt að hlaupa og fá viðurkenningarskjal þó að búið sé að draga út vinningana.

Á myndunum með fréttinni má annars vegar sjá nemendur í Sunnulækjarskóla við rásmarkið í Ólympíuhlaupinu og hins vegar nemendurna á fullri ferð í hlaupinu.

Ljósmyndir: Ragnheiður Guðný Magnúsdóttir og Ágústa Tryggvadóttir.


Myndir með frétt