Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Transbörn og íþróttir í Reykjavík

04.05.2020

Ný stefna í íþróttamálum Reykjavíkur sem gildir til ársins 2030 var samþykkt í borgarstjórn þann 21. apríl sl. Stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030 má sjá hér.

Í stefnunni er mikil áhersla lögð á hreyfingu, t.a.m. að minnst 70% borgarbúa hreyfi sig rösklega í 30 mínútur þrisvar í viku og að minnst 70% barna og unglinga stundi íþróttir og hreyfingu í skipulögðu starfi. Mikil áhersla er lögð á að öll börn og unglingar hafi tækifæri til að þroskast og eflast í fjölbreyttu og aðgengilegu íþróttastarfi. Þá á sérstaklega að tryggja að transbörn geti stundað skipulagðar íþróttir til jafns við önnur börn og tryggja fræðslu þjálfara til að mæta þörfum ólíkra barna.

Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, kom að vinnu að nýútgefnum bæklingi á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um íþróttaiðkun trans barna. Hún segir að mikilvægt sé fyrir íþróttahreyfinguna að huga vel að aðgengi trans barna að íþróttastarfi, taka vel á móti þeim og huga vel að þeirra sérstöðu. „Trans börn sem eru viðurkennd eins og þau eru og fá stuðning í samræmi við sína kynvitund hafa betri sjálfsmynd og líður betur andlega en trans börnum sem ekki eru viðurkennd eins og þau eru eða upplifa sig. Með þetta í huga ætti alltaf að nota það fornafn sem börnin kjósa og hafa valið sér og breyta eftirnafni þannig að það samræmist því kyni“, segir Ragnhildur.

Bæklingurinn er hugsaður til upplýsinga fyrir foreldra, þjálfara og aðra sem að íþróttastarfi koma og var unnin m.a. í samstarfi við Samtökin 78, Trans Ísland og Trans vini. Bæklingurinn er fyrst og fremst leiðbeinandi og tekur til barna að 12 ára aldri eða fyrir kynþroska. Bæklinginn má nálgast í prentaðri útgáfu á skrifstofu ÍSÍ og í rafrænni útgáfu á vefsíðu ÍSÍ.

Bæklinginn má sjá hér.