Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Minnst 90% reykvískra íþróttafélaga verði Fyrirmyndarfélög ÍSÍ

30.04.2020

Ný stefna í íþróttamálum Reykjavíkur sem gildir til ársins 2030 var samþykkt í borgarstjórn þann 21. apríl sl. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að stefnan hafi verið í vinnslu í rúmt ár og hafi borgaryfirvöld verið í nánu samstarfi við íþróttahreyfingar í borginni.

Stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030 má sjá hér

Í stefnunni er mikil áhersla lögð á hreyfingu borgarbúa, enda hefur sýnt sig og sannað að hreyfing stuðlar að heilbrigði og vellíðan. Stefnt er á að minnst 70% borgarbúa hreyfi sig rösklega í 30 mínútur þrisvar í viku og að minnst 70% barna og unglinga stundi íþróttir og hreyfingu í skipulögðu starfi.

Í stefnunni er einnig lögð áhersla á að minnst 90% íþróttafélaga sem eru með barna- og unglingastarf séu Fyrirmyndafélög ÍSÍ. Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, hefur haft umsjón með verkefninu Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, ásamt verkefninu Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Um hvað snýst verkefnið?

„Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Fyrirmyndarhérað ÍSÍ eru gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snúa að íþróttastarfi. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög, -deildir eða -héruð sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem ÍSÍ gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, Fyrirmyndardeild ÍSÍ eða Fyrirmyndarhérað ÍSÍ,“ segir Viðar.

„Komið er inn á þætti eins og skipulag og umgjörð ásamt markmiðum með starfseminni. Þá er gerð krafa um að öll íþróttafélög og -héruð sem sækja um þessa viðurkenningu verði með virkar siðareglur, eineltis- og jafnréttisáætlanir, sem og áætlanir um viðbrögð við hvers kyns ofbeldi svo eitthvað sé nefnt. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ í desember 2019 og þar með stefnir ÍBR að því að aðildarfélög þess fái viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélög ÍSÍ. Sum þeirra hafa viðurkenninguna nú þegar en það er mikið fagnaðarefni að í stefnu borgarinnar í íþróttamálum skuli vera komið inn á mikilvægi þess að íþróttafélögin fái þessa viðurkenningu frá ÍSÍ“, segir Viðar.

Lesa má meira um Fyrirmyndarfélag ÍSÍ hér.

Lesa má meira um Fyrirmyndarhérað ÍSÍ hér.

ÍSÍ hvetur íþróttafélög, -deildir og -héruð til að sækja um þessa viðurkenningu til ÍSÍ.

Myndirnar með fréttinni eru frá fjórum afhendingum Fyrirmyndarfélagsviðurkenninga síðastliðin ár.

Myndir með frétt