Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Seinni hluti að hefjast í Lausanne

17.01.2020

Vetrarólympíuleikar ungmenna fara nú fram í Lausanne í Sviss og standa til 22. janúar n.k. Fyrri hluti leikanna, þar sem keppt var í alpagreinum, lauk þann 14. janúar. Aðalbjörg Lilly Hauksdóttir og Gauti Guðmundsson kepptu fyrir Íslands hönd. 

Þann 10. janúar fór fram keppni í risasvigi, bæði stúlkna og pilta. Aðalbjörg Lillý lauk keppni í 34. sæti á tímanum 1:00,51 (158.39 FIS punktar) og var 4,24 sek á eftir Amelie Klopfenstein frá Sviss sem sigraði á 56,27 sek. Í öðru sæti var Caitlin Mcfarlane frá Frakklandi og í því þriðja Noa Szollos frá Ísrael. Keppni í risasvigi er ein umferð og voru 62 stúlkur skráðar til leiks. 50 þeirra luku keppni. Gauti lauk keppni í 51. sæti á tímanum 1:01,32 og var 6,76 sek á eftir Adam Hofstedt frá Svíþjóð sem sigraði á 54,56 sek. Í öðru sæti var Rok Aznoh frá Slóveníu sem var 0,06 sek. frá fyrsta manni og í því þriðja Luc Roduit frá Sviss. Keppni í risasvigi er ein umferð og voru 63 piltar skráðar til leiks. 57 þeirra luku keppni.

Þann 11. janúar kepptu Aðalbjörg Lillý og Gauti í svighluta tvíkeppni leikanna. Í keppninni er það samanlagður árangur úr risasvigskeppninni deginum áður auk svigkeppninnar sem fram fór þennan dag sem taldi. Gauti Guðmundsson skíðaði á 36,85 sekúndum sem var 29 besti árangur í sviginu. Í heildina varð hann því í 31. sæti í tvíkeppninni. Heildarúrslit má finna hér. Aðalbjörg Lillý Hauksdóttir féll í sviginu og lauk því ekki keppni.

Þann 12. janúar tók Aðalbjörg Lillý þátt í stórsvigskeppni stúlkna. Því miður hlekktist henni á í fyrri umferð og féll hún úr leik. Alls tóku 78 stúlkur þátt í keppninni en einungis 37 þeirra náðu að klára báðar ferðirnar. Sigurvegari í risasvigi stúlkna varð Amelie Klopfenstein frá Sviss, í öðru sæti varð finnska stúlkan Rosa Pohjolainen og í þriðja sætinu varð Amanda Salzbeger frá Austurríki.

Þann 13. janúar fór fram keppni í stórsvigi pilta og var Gauti ræstur 56. af 77. keppendum í fyrri ferð. Þar náði hann 36. besta tímanum. Í seinni ferðinni gerði hann enn betur þegar hann náði 27. besta tímanum og endaði í 29. sæti samanlagt. Heildarúrslit stórsvigskeppninnar má finna hér.

 

Þann 14. janúar fór fram keppni í svigi og féllu Aðalbjörg Lillý og Gauti bæði úr leik án þess að ljúka keppni. Aðalbjörg Lillý féll í fyrri umferð en Gauti Guðmundsson í annarri umferð. Eftir fyrri ferðina var Gauti í 33. sæti.

Var þetta þeirra síðasta keppnisgrein á Vetrarólympíuleikum ungmenna 2020 og héldu þau heim á leið í gær. Þá komu íslensku þátttakendurnir í skíðagöngu á mótsstað. Seinni hluti leikanna hefst á morgun, en í seinni hluta leikanna teflir Ísland fram keppendum í skíðagöngu. Þátttakendur Íslands á Vetrarólympíuleikum ungmenna 2020 í skíðagöngu eru Einar Árni Gíslason og Linda Rós Hannesdóttir, keppandur, ásamt þjálfurunum Vadim Gusev og Sigrúnu Önnu Auðardóttur.

 
Aðalfararstjóri íslenska hópsins er Örvar Ólafsson.

Með því að smella hér má finna yfirlit yfir þá keppnisviðburði sem sýndir verða í beinni útsendingu á Ólympíurásinni meðan á leikunum stendur og hægt er að horfa á Ólympíurásina hér.

Myndir af leikunum má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.

Vefsíða Vetrarólympíuleika ungmenna 2020.

Facebook síða YOWG
Instagram síða YOWG

YouTube síða YOWG
Snapchat YOWG

 

Um Ólympíuleika ungmenna
Ólympíuleikar ungmenna eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 15 til 18 ára. Skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikarnir. Hugmyndina á Jacques Rogge fyrrverandi forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og var hún kynnt til sögunnar árið 2001, en fyrstu leikarnir voru sumarleikar sem haldnir voru í Singapore 2010. Fyrstu vetrarleikarnir fóru fram 2012 í Innsbruck í Austurríki og aðrir leikarnir í Lillehammer í Noregi 2016. Ísland hefur í bæði skiptin sent þátttakendur á leikana.