Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Stjarnan sér tækifæri í verkefninu Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

12.12.2018

Mörg íþrótta- og ungmennafélög og deildir þeirra sjá sér hag í því að verða fyrirmyndarfélög ÍSÍ. Umf. Stjarnan í Garðabæ er eitt þeirra félaga sem hefur þessa nafnbót og hefur haft í allmörg ár eða allt frá árinu 2005. Allar deildir innan Stjörnunnar eru fyrirmyndardeildir ÍSÍ í dag og var síðasta endurnýjun til deildanna og þar með félagsins í heild sinni afhent snemma árs 2016. Handbækur deildanna eru afar vel unnar og aðalstjórn hefur mótað skýrar stefnur í þeim málaflokkum sem kröfur eru gerðar til um. 

Páll Grétarsson, fjármálastjóri UMF Stjörnunnar segir í viðtali við ÍSÍ fréttir að þessi viðurkenning hafi haft margar jákvæðar breytingar í för með sér fyrir félagið.

Hvers vegna sótti félagið um viðurkenninguna?
Við sáum tækifæri í því að nýta okkur hugmyndafræði verkefnisins til að bæta verklag félagsins á ýmsum sviðum. Með tilkomu handbókar félagsins og deilda varð t.d. til tæki sem hefur nýst félaginu vel.

Hefur viðurkenningin haft jákvæðar breytingar í för með sér?
Engin spurning. Á þeim tíma sem við hófum þátttöku í verkefninu var Stjarnan ört stækkandi félag og iðkendum fjölgaði gríðarlega. Skjalfest verklag og handbækur hafa hjálpað okkur mikið í að mæta þeim áskorunum sem fólust í þeim öru breytingum sem félagið gekk í gegnum.

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?
Já, ég myndi vilja hvetja félög til að nýta sér þau verkfæri sem felast í verkefninu.

 

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Fyrirmyndarhérað ÍSÍ eru gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snúa að íþrótta-starfi. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög, -deildir eða -héruð sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem ÍSÍ gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, Fyrirmyndardeild ÍSÍ eða Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. ÍSÍ hvetur íþróttafélög, -deildir og -héruð til að sækja um þessa viðurkenningu til ÍSÍ. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu ÍSÍ hér.

Myndir með frétt