Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna

26.05.2017Hjólað í vinnuna 2017 lauk formlega í hádeginu í dag með verðlaunaafhendingu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. Fyrr í vikunni lauk skráningum ferða og þar með voru úrslitin ljós. Verðlaun voru veitt fyrir þrjá efstu vinnustaðina í öllum flokkum fyrir hlutfall þátttökudaga. Í kílómetrakeppninni voru þremur efstu liðunum veitt verðlaun fyrir bæði heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra miðað við fjölda starfsmanna.

Þetta árið voru þátttakendur tæplega 6 þúsund talsins (5.720 manns), fjöldi vinnustaða 450 sem skráðu 966 lið til keppni. Skráðir kílómetrar voru 428.926 km sem jafngildir um 320 hringjum í kringum landið. Er þetta aukning á öllum tölum frá árinu áður.

Húsfyllir var við afhendinguna í veitingaskála Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og afhentu stjórnarmenn Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Hafsteinn Pálsson og Ása Ólafsdóttir, þátttakendum verðlaunaplatta í hverjum flokki fyrir sig.

Við sama tækifæri afhenti Sesselja Traustadóttir framkvæmdastýra Hjólafærni þremur fyrirtækjum hjólavottun fyrir hjólavænan vinnustað. Að þessu sinni hlaut Reiknistofa bankanna gullvottun frá Hjólafærni og þá hlutu Reykjalundur og Íbúðalánasjóður silfurvottun fyrir hjólavæna aðstöðu.

Íþrótta- og Ólympíusamband íslands stóð í fimmtánda árið fyrir Hjólað í vinnuna, heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 3. – 23. maí. Landsmenn hafa tekið átakinu gríðarlega vel og hefur verið aukning ár frá ári. Einnig má merkja að hjólreiðar allt árið hafa aukist til muna síðan að verkefnið hófst fyrir 15 árum. Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Helstu samstarfsaðilar eru: Embætti landlæknis, umhverfissvið Reykjavíkurborgar, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Rás 2, Landssamtök Hjólreiðamanna, Örninn, Advania og Nutcase á Íslandi.

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á vefsíðu Hjólað í vinnuna, hjoladivinnuna.is

Myndir með frétt