Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Fundur aðalfararstjóra vegna PyeongChang 2018

07.02.2017

Næstu Vetrarólympíuleikar fara fram í PyeongChang í Suður Kóreu í febrúar 2018.

Í síðustu viku fór fram fundur aðalfararstjóra Ólympíunefnda og sótti Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, fundinn fyrir hönd ÍSÍ, en framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefndi hann í hlutverk aðalfararstjóra nýverið.

Á fundinum var farið yfir öll helstu atriði sem snúa að undirbúningi og þátttöku á leikunum auk þess sem að mannvirki og aðstaða var skoðuð. Keppnismannvirki eru að mestu tilbúin en verið er að vinna að byggingu Ólympíuþorpa, leikvangs fyrir setningar- og lokahátíð og hótela fyrir gesti á leikunum. Háhraðalest mun flytja þátttakendur frá flugvelli að aðal Ólympíusvæðinu sem er í PyeongChang sýslunni í Gangwon héraðinu. Þar verður keppt í snjógreinum og setningar- og lokahátíðarnar fara þar fram. Við austurströndina verður keppt í ísgreinum, en borgin Gangneung mun hýsa hitt Ólympíuþorpið og keppnisstaði ísgreina.

Ljóst er að skipulag leikanna mun henta íslenskum þátttakendum betur en oft áður. Stutt er á milli Ólympíuþorpsins og keppnisstaða skíðagöngu og tæknigreina alpagreina. Eins er stutt í það mannvirki sem hýsir setningar- og lokahátíð, sem og verðlaunaafhendingar sem fara fram á einum stað á hverju kvöldi.

Á meðfylgjandi myndum má sjá keppnissvæði í skíðaskotfimi sem er staðsett við hlið keppnissvæðis skíðagöngu. Eins má sjá marksvæði alpagreina, þ.e. svig og stórsvig og eitt herbergi í Ólympíuþorpinu.

Hér má sjá vefsíðu leikanna.

Hér má sjá Facebook-síðu leikanna.

Myndir með frétt